Komið að skuldadögum hjá Íslendingum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-,orku- og loftlagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-,orku- og loftlagsráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-,orku- og loftlagsráðherra, segir það liggja fyrir að það sé komið að skuldadögum hjá Íslendingum vegna þess að ekki hafi verið sinnt að framleiða græna orku.

Frumvarp um sameiningu þann hluta umhverfisstofnunar sem heldur utan um leyfisveitingar og stjórnsýslu umhverfis- og orkustofnunar og frumvarp um náttúru- og menningarminjastofnum var kynnt á ríkisstjórnarfundi í dag. Þetta staðfesti Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.

„Ég kom einnig með minnisblað um vinnu, sem er löngu hafin, um einföldun leyfisveitingaferla. Þetta hangir saman og það er mjög erfitt að gera þetta nema að þessi frumvörp fari í gegn,“ segir Guðlaugur Þór við mbl.is.

Náð góðum árangi með leyfisveitingar

Guðlaugur segir að þessi vinna sé búin að vera í gangi frá því hann kom inn í ráðuneytið og að sameiningarferlið hafi farið strax af stað.

„Við höfum þegar náð árangri þegar kemur að leyfisveitingum og stærsta frumvarpið sem hefur orðið að lögum er stækkunarfrumvarpið. Orkufyrirtæki sem ætla að stækka virkjanir sínar þurfa ekki lengur að fara í gegnum rammaáætlun og í gegnum þingið heldur geta þau farið í stækkanir eftir umhverfismatið,“ segir Guðlaugur.

Ráðherrann segir að 300 megavött séu nú í pípunum sem aflaukning á virkjunum sem er verið að stækka.

„Þetta er búið að vera samfellt frá því við fórum inn í ráðuneytið og það er gott að við erum komin á þennan stað. Það liggur alveg fyrir að það er komið skuldadögum hjá okkur Íslendingum vegna þess að við höfum ekki sinnt því að framleiða græna orku. Ef þú sinnir ekki slíkum hlutum þá kemur það í bakið á þér og þess vegna liggur okkur á,“ segir Guðlaugur.

Snýst um að nýta betri tækni til að fá meira afl

Þessi 300 megavött sem þú nefnir. Getur þú eitthvað úttalað þig um þessi verkefni?

„Það er ekkert leyndarmál. Þau eru í Landsvirkjun þar sem menn eru að stækka það sem fyrir er og fá betri nýtingu. Mjög sjaldan hefur þetta einhver umhverfisáhrif. Þetta snýst um það að nýta betri tækni til þess að fá meira afl,“ segir Guðlaugur Þór.

Nýlega kom út skýrsla um orkunýtni og segir Guðlaugur að þau stóru skref sem hafi verið tekin í orkumálum á kjörtímabilinu hvort sem það er ramminn, þar sem kyrrstaða var rofin eftir níu ár, eða aflaukningarfrumvarpið.

„Við vorum líka með orkusparnaðarfrumvarp sem varð að lögum og er í tengslum við varmadælur sem nú þegar eru búnar að skila því að það eru tugir þúsunda rafbíla sem við erum búin að skapa orku fyrir. Á sama tíma og við erum að hugsa um að framleiða nýja græna orku þá erum við alltaf með augun á því að fara betur með hana. Þessi skýrsla um orkunýtni er mjög góð vegna þess að hún tekur fyrir hvað er auðvelt og hvað er erfitt. Það sem er auðveldast fyrir okkur er að fara yfir í led ljósaperurnar,“ segir Guðlaugur.

Guðlaugur segir að í skýrslunni, sem er opin fyrir allan almenning, að það sé hægt að ná 8 prósent orkusparnaði með því að nýta led og svo flóknari hluti eins og glatvarma og annað sambærilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert