Átján flóttamenn frá Afganistan komnir

Fólkið kemur hingað til lands á grundvelli sérstakrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar …
Fólkið kemur hingað til lands á grundvelli sérstakrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra um að taka á móti fólki í viðkvæmri stöðu frá Afganistan. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Átján Afganar eru komnir til Íslands á grundvelli sérstakrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar að taka á móti fólki í viðkvæmri stöðu frá Afganistan í kjölfar valdatöku talíbana. Um er að ræða aðstandendur ungra Afgana sem búa hér á landi.

Þetta kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Fólkið kom til landsins í þremur hópum, frá september og fram í nóvember, og eru átta börn þar á meðal.  Unnið er að því að koma seinni hluta hópsins til landsins en hann telur samtals 15 einstaklinga.

„Það var hjartnæmt að heyra af endurfundum fjölskyldna sem ekki höfðu sést svo árum skipti. Ungmenni fengu til dæmis loksins að hitta mæður sínar og systkini. Áhyggjur fólks af fjölskyldum sínum í Afganistan hafa skiljanlega verið þungar og óttinn mikill um það hver afdrif þeirra yrðu undir stjórn talibana,“ er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í tilkynningunni.

78 manns komu frá Afganistan haustið 2021 í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar Íslands eftir valdatöku talíbana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert