Varar við blóðugum verkföllum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinarsambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinarsambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfs­greina­sam­bands­ins, gagnrýnir harðlega sveitarfélög sem hafa boðað verulega hækkanir á gjaldskrá sínum um áramótin.

„Við erum öll á sama „báti“ er öskrað á okkur í verkalýðshreyfingunni og þið verðið að „sýna“ skynsemi í komandi kjarasamningum ef við eigum að ná niður verðbólgunni! Enda er verðbólgan launafólki um að „kenna“ er öskrað úr öllum áttum,“ segir Vilhjálmur í færslu á Facebook-síðu sinni.

Vilhjálmur telur skynsamlegt að gera þá kröfu að allir, ríki og sveitarfélög, verslun og þjónusta og tryggingafélög, skuldbindi sig til að hækka ekki gjaldskrár eða almennt verð um meira en 2,5% á næsta ári.

Hafa ekki svarað ákalli verkalýðshreyfingarinnar

„Við höfum sagt að við erum til í að gera langtímasamninga í anda lífskjarasamninga ef allir taka þátt og ráðist verður hér í kerfisbreytingar á fjármálakerfinu ásamt öðrum atriðum er lúta að hagsmunum launafólks, neytenda og heimilanna,“ segir Vilhjálmur í færslu sinni.

Hann segir að sveitarfélögin hafi ekki svarað þessu ákalli verkalýðshreyfingarinnar og nefnir til að mynda að Hafnarfjarðarbær hafi hækkað skólamáltíðir um 33% og 19% hækkun á fæðisgjaldi í leikskólum þann 1. nóvember. Þá segist hann hafa vitneskju um 20% hækkun á skólamáltíðum í grunnskólum á Akranesi.

„Það er ljóst ef það á að níðast enn frekar á heimilum þessa lands í formi kostnaðarhækkana þá stefnir í blóðug verkfallsátök á nýju ári. Til að forða frá því verður að verða alger stefnubreyting hjá sveitafélögunum, stjórnvöldum, verslun og þjónustu og taka verður á okurvöxtum fjármálakerfisins,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur segist ekki vera bjartsýnn á framhaldið og honum finnist vera skilningsleysi aðila á alvarleikanum á stöðu launafólks, neytenda og heimila ekki vera upp á marga fiska. Kostnaðarhækkanir Hafnarfjarðarbæjar sýni það og sanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert