Eignatilfærsla milli kynslóða dæmd ólögmæt

Lífeyrissjóður verslunarmanna.
Lífeyrissjóður verslunarmanna. Ljósmynd/Aðsend

Ákvörðun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna um að lækka áunnin réttindi yngri sjóðsfélaga mismikið eftir aldurshópum en hækka hjá þeim sem eldri eru hefur verið dæmd ógild í Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Lífeyrissjóðurinn er einn nokkurra sem greip til þessa ráðs í kjölfar þess að nýjar lífslíkur eru hærri en kynslóðanna sem á undan komu.

Samhliða þessari breytingu voru áunnin réttindi sjóðsfélaga aukin þvert yfir línuna í kjölfar góðrar ávöxtunar, en í ljósi fyrrnefndrar lækkunar varð heildarniðurstaðan sú að réttindi voru skert hjá yngri árgöngum en aukin hjá þeim eldri. Raunar var línan sú að þeir sem voru fæddir 1979 héldu sínum réttindum frá því sem áður var. Hinir yngri fengu hins vegar lækkun en þeir sem fæddir voru fyrir 1979 fengu hækkun.

Ekki allir sem fóru þessa leið 

Um að er ræða breytingatillögu á tilhögun til sjóðsfélaga sem samþykkt var af stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna þann 25. febrúar 2022.

Þeir lífeyrissjóð sem fóru þessa leið eru. Almenni lífeyrissjóðurinn, EFÍA, Festa, SL lífeyrissjóður, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Lífeyrissjóður Vestmannaeyja.

Þeir lífeyrissjóðir sem fóru ekki þessa leið voru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Íslenski lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður bankamanna, Stapi, Birta, Lífeyrissjóður bænda og Lífsverk. 

Jafnræðis- og meðalhófsreglur brotnar 

Karlmaður fæddur 1982 fór í mál við Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Lögmaður hans er Jóhannes S. Ólafsson. 

„Við erum auðvitað mjög ánægðir með bæði niðurstöðuna og forsendur dómsins. Dómurinn staðfestir að breytingarnar hafa ekki nokkra lagastoð en gengur lengra og tekur sérstaklega fram að jafnfræðisreglan og meðalhófsreglan hafi verið brotnar. Í málinu er fallist á aðalkröfuna okkar um að ógilda í heild sinni ákvæðið, sem felur í sér mismununina gegn sjóðfélögum samtryggingasjóðsins.

Jóhannes S. Ólafsson
Jóhannes S. Ólafsson Mynd/aðsend

Þannig er ekki einungis fallist á að óheimilt hafi verið að skerða réttindi míns umbjóðanda, heldur einnig að óheimilt hafi verið að hækka réttindi þeirra sem eldri eru. Öll mismununin er því dæmd ólögmæt. Ég tel að þessi dómur hafi svo fullt fordæmisgildi gegn öllum þeim lífeyrissjóðum sem fóru þessa leið, þ.e.a.s. að breyta áunnum réttindum aftur í tímann út frá hinum nýju lífslíknatöflum frá FÍT.

Verði það niðurstaðan, þá eru allir sjóðirnir sem Talnakönnun hf. reiknar fyrir, s.s. Gildi, Almenni , Festa o.fl. í sömu stöðu og Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Breytingar sjóðanna þurfa þá að ganga til baka geri ég ráð fyrir. En nú er auðvitað spurning hvernig hver og einn sjóður túlkar þetta, auk þess sem ég geri ráð fyrir að menn vilji bíða eftir niðurstöðu Landsréttar og eftir atvikum Hæstaréttar í svona máli,“ segir Jóhannes. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert