Gæti snjóað nánast út í eitt

Snjóað gæti talsvert á Siglufirði. Myndin er tekin í janúar …
Snjóað gæti talsvert á Siglufirði. Myndin er tekin í janúar á þessu ári. mbl.is/Sigurður Ægisson

Á næstu dögum og vikum gæti orðið nokkuð fannfergi í útsveitum norðanlands. Hæð yfir Grænlandi stýrir nú veðrinu yfir Íslandi og verða þrálátar norðaustan- og norðanáttir næstu tíu daga. 

„Fremur kalt í veðri, en alls ekki mikill gaddur heilt yfir, þó frostið kunni að bíta sums staðar í innsveitum. Þegar svona háttar til snjóar „létt, en nánast út í eitt“ í útsveitum norðanlands. Þannig gæti með tímanum orðið nokkuð fannfergi s.s. á Siglufirði, Ólafsfirði, á Húsavík og austur með ströndinni. Eins norðantil á Ströndum – eða sem sagt áveðurs. Hins vegar verður lítið úr fannkomu til landsins,“ skrifar veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson á vef sínum Bliku

Stóri-Boli og Síberíu-Blesi

Einar fjallar nánar um Grænlandshæðina og kuldapolla í háloftunum yfir norðurhveli. 

„Á veturna eru gjarnan tveir ríkjandi kuldapollar í háloftunum og eiga þeir báðir sín „ból“ ef svo má segja. Trausti Jónsson kallar þann vestan Grænlands Stóra-Bola og hinn sem við höfum minna að segja af; Síberíu-Blesa. Þegar Stóri-Boli er öflugur og fyrirferðamikill herja gjarnan djúpu lægðirnar á Atlantshafi og stormatíð er ríkjandi veðurlag hjá okkur. Sjáum að Stóri-Boli er lítill og veiklaður um þessar mundir,“ skrifar Einar. 

Hins vegar ber meira á Síberíu-Blesa núna. Veldur hann ýmsum óskunda á heimaslóðum sínum í Austur-Asíu, m.a. í Japan og með lægðum á N-Kyrrahafi. Þá „lekur“ frá honum kuldinn til vesturs og í áttina að Evrópu, ekki síst til Eystrasaltslandanna og Skandinavíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert