Hringdi heim „collect“

Guðni Th. Jóhannesson tekur á móti næsta gesti sínum á …
Guðni Th. Jóhannesson tekur á móti næsta gesti sínum á Grand hóteli, Gísla Kristjánssyni fréttaritara hvers rödd velflestir íslenskir fjölmiðalneytendur ættu að kannast vel við. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Íslendingafélagið í Ósló fagnar 100 ára afmæli sínu á morgun, fullveldisdaginn 1. desember, og var mikið um dýrðir í norsku höfuðborginni nánast heila viku október af því tilefni eins og mbl.is gerði grein fyrir að hluta á sínum tíma – tónleikar, bókmenntahátíð, fyrirlestrahald og barnamenningarhátíð svo eitthvað sé nefnt.

Forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, heimsótti Ósló og dvaldi nokkru lengur en vaninn telst í almennum heimsóknum embættisins enda heiðursgestur á fjölda viðburða sem hann aukinheldur setti að mestu leyti með ávörpum.

Guðni hittist fyrir á hinu fornfræga Grand hóteli við Karls Jóhannsgötu í hjarta Óslóar eftir að brúnvölir lífverðir hans frá norsku öryggislögreglunni PST höfðu lagt blessun sína yfir blaðamann og jafnvel gerst svo alþýðlegir undir lokin að sitja fyrir á einni mynd eða svo.

Lífverðirnir frá öryggislögreglunni PST sigu brúnaþungir fram er blaðamann bar …
Lífverðirnir frá öryggislögreglunni PST sigu brúnaþungir fram er blaðamann bar að garði en voru orðnir hinir alþýðlegustu undir lokin svo sem landar þeirra flestir. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Á slóð Ibsens

„Ég er hingað kominn vegna þess að við fögnum nú aldarafmæli Íslendingafélagsins í Ósló og nágrenni,“ segir forsetinn í skuggsælum hliðarsal út frá glæsilegu anddyri hótelsins og veitingastaðarins Grand Café þar sem ástmögur norskrar þjóðar, rithöfundurinn Henrik Ibsen, var daglegur hádegisverðargestur um árabil. Þar með tökum við okkur skáldaleyfi og höfum þetta októberviðtal í nútíð.

„Þegar ég fékk boð um að mæta á þennan viðburð hugsaði ég mig um, auðvitað eins og gengur, en sá svo hve mikill metnaður var lagður í dagskrána og hve víðfeðm og flott hún er í alla staði. Sá þá um leið að ég gæti leyft mér að fljúga hingað yfir svo hingað er ég kominn og búinn að njóta ýmissa viðburða og fleiri eftir þannig að þetta hefur verið ánægjulegt í alla staði,“ segir Guðni af förinni.

Hann játar að heimsóknin sé lengri en almennt enda helgist það af fræðum hans, sagnfræðingsins. „Ég bætti við hálfum degi svo ég gæti litið við á ríkisskjalasafninu og blaðað þar í skjölum frá áttunda áratugnum um landhelgismál og þorskastríð því þar er margt fróðlegt að finna. Ég var nú búinn að kynna mér þessi gögn áður en þurfti að rýna í þau aftur,“ útskýrir Guðni og segir nánar af þessu.

Yfir 9.000 Íslendingar í Noregi

„Ég skoðaði afgreiðsluseðilinn og sá þá að sá síðasti sem gluggaði í þessi skjöl utanríkisráðuneytisins var „Jóhannesson, 2001“, þá var ég sagnfræðinemi og nú er ég kominn hingað í öðrum erindagjörðum og í öðru embætti en erindið hið sama að þessu leyti,“ heldur hann áfram. „Sagan er snúin og skemmtileg á marga vegu.“

Við snúum talinu að annarri sagnfræði, Íslendingafélögum erlendis. Hvaða gildi telur Guðni þau hafa fyrir brottflutta syni og dætur fósturjarðarinnar?

„Þau hafa alltaf haft mikið gildi,“ svarar forsetinn um hæl, „hér í Noregi búa núna yfir 9.000 íslenskir ríkisborgarar. Ef við miðum það við bæ heima á Íslandi er það fjölmennur bær þar,“ segir Guðni og gerir hlé á máli sínu er stimamjúkur þjónn ber kaffi á borð gesta sinna.

Mamma sendi blöðin

„Eins og gengur og gerist heima fer ég í opinberar heimsóknir til bæja á Íslandi og þetta fellur jafnvel undir þann hatt. Hér hittir maður landa sína, mér var boðið á tvenna tónleika og leit við í Ólafíustofu þar sem söfnuðurinn hefur aðsetur, hér er einnig bókaviðburður fram undan og barnahátíð þannig að það er mjög gaman að hitta landa sína á erlendri grundu,“ heldur Guðni áfram eftir fyrsta sopann af rjúkandi svartbaunaseyði úr eldhúsi Grand.

Hann segir Íslendingafélög hafa breyst mikið í áranna rás. „Ég man að mamma sendi blöðin og maður fékk þau kannski hálfsmánaðarlega í einum pakka og svo hringdi maður heim, „collect eins og það hét“, kannski tvisvar í mánuði. Það voru ekki þessi sömu tengsl við heimalandið og nú eru þar sem maður getur notað alls kyns samfélagsmiðla, hlustað á útvarpið í tölvunni og hvaðeina,“ segir forsetinn af tvennum tímum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert