Alveg fáránlega ósanngjarnt

Yrsa segir að hún hafi tekið afar nærri sér ummæli …
Yrsa segir að hún hafi tekið afar nærri sér ummæli sem látin voru falla um að þau Ragnar Jónasso væru hlynnt þjóðarmorði. mbl.is/Ásdís

Yrsa Sigurðardóttir ræðir við blaðamann um Iceland Noir; bókmenntahátíð Yrsu og Ragnars Jónassonar, sem gekk afar vel en litaðist í ár af pólitík og deilum.

„Okkur hefur gengið ótrúlega vel að fá stór nöfn til að koma, sem er frábært. Við höfum notað öll okkar sambönd erlendis, það fer gott orð af hátíðinni og Ísland er spennandi. Í ár var tæpur helmingur gesta Íslendingar þannig að við höfum meira verið að komast á kortið hjá Íslendingum sem gleður okkur mjög,“ segir Yrsa.

„Svo í ár lendum við í fjölmiðla- og samfélagsmiðlastormi sem við sáum ekki fyrir og reyndist okkur mjög erfiður,“ segir Yrsa en málið snerist um komu Hillary Clinton á hátíðina. Hún er höfundur bókarinnar Ríki óttans, ásamt Louise Penny, og af þeim sökum var henni boðið á sérstakan viðburð á vegum Iceland Noir sem haldinn var í Hörpu. Hópur fólks mótmælti komu hennar vegna ummæla Clinton um stríðið í Ísrael sem féllu stuttu fyrir hátíðina, en hún sagðist styðja aðgerðir Ísraelsstjórnar.

Ósanngjörn ummæli erfið

Finnst þér að það eigi að blanda pólitík saman við bókmenntahátíð?

„Ég efast um að við verðum aftur með erlendan rithöfund sem tengist pólitík, ef við ákveðum að halda hátíðina aftur. Við erum ekki búin að ákveða það. Clinton var ekki boðið á hátíðina sem stjórnmálamanni, heldur sem rithöfundi. Hún er merkileg kona, óháð því sem hún sagði í aðdraganda hátíðarinnar,“ segir Yrsa og segir aldrei hafa komið til greina að hætta við komu hennar, enda var það orðið allt of seint hefði það komið til greina yfirhöfuð.

„Hún er ekki virkur stjórnmálamaður í dag þó að hún hafi sterka rödd á alþjóðasviðinu. Við förum ekki yfir allt sem allir hafa áður sagt til að sjá hvort við séum þeim sammála,“ segir Yrsa.

„Það voru friðsöm mótmæli í Hörpu og fólk mátti auðvitað vera á móti komu hennar og tjá sig um það. En það sem var erfiðast að kyngja voru ummæli um að við værum hlynnt þjóðarmorði; það var alveg fáránlega ósanngjarnt,“ segir Yrsa og segist einnig þykja miður að nokkrir íslenskir rithöfundar hafi fengið yfir sig holskeflu neikvæðra athugasemda á samfélagsmiðlum.

„Við heyrðum svo að við værum að láta vorkenna okkur þegar við loks tjáðum okkur opinberlega, en við erum ekkert að því. Það er staðreynd að okkur leið mjög illa út af þessu og áttum við þá að ljúga því að okkur væri skítsama?“

Yrsa segir þau Ragnar ekki vera búin að ákveða hvort hátíðinni verði hætt eða haldið áfram. Hún segir að umræðan um Clinton myndi eiga stóran þátt en yrði samt ekki eina ástæðan fyrir því að hætta, ef það yrði raunin.

„Þetta er ofboðsleg vinna og það er brjálað að gera hjá okkur báðum í vinnu og bókastússi. Tilfinningin hjá okkur báðum eftir hátíðina var að við vorum eins og undnar tuskur. Er þetta þess virði? En við eigum eftir að anda, láta jólin líða og ákveða svo framhaldið í janúar.“

Ítarlegt viðtal er við Yrsu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert