„Raunverulegu samningaviðræðurnar“ að hefjast

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnuna í morgun.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði ráðstefnuna í morgun. AFP/Giuseppe Cacace

„Það er töluverður hugur á þessum upphafsdögum. Sú ákvörðun að setja á laggirnar hamfarasjóð, sem einnig er kallaður „tap og tjón vegna loftslagsbreytinga“ hefur dregið í för með sér ákveðna jákvæða bylgju inn í upphaf ráðstefnunnar, en við Íslendingar tökum þátt í þeim sjóði líkt og flestallar þær þjóðir sem að ég hef náð að ræða við fulltrúa frá. Það hefur ríkt bjartsýni núna í upphafi ráðstefnunnar en nú taka við allar raunverulegu samningaviðræðurnar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, í samtali við mbl.is um andrúmsloftið á lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna COP28, sem hófst á fimmtudaginn í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.  

Hvernig er samningaviðræðum um loftslagsmál háttað á milli 90.000 manns á slíkri ráðstefnu?

„Þetta er mjög áhugavert því hingað koma flestir þjóðarleiðtogar, þó auðvitað ekki allir, en síðan eru það embættismenn sem sitja við samningaborðið. Svo eru hérna líka allskyns annars konar fulltrúar frá fyrirtækjum og félagasamtökum sem eru hér á fullu að kynna sín störf,“ segir Katrín.

Ísland sé með skýra afstöðu

Eru íslensk stjórnvöld með einhver sérstök markmið og/eða áherslur sem við viljum koma á framfæri að þessu sinni?

„Við tölum mjög skýrt fyrir þeirri afstöðu að fasa út jarðefnaeldsneyti og að hætta opinberum niðurgreiðslum á því, og það er auðvitað eitthvað sem er líka hluti af stefnu íslenskra stjórnvalda heima fyrir.

Með þátttöku okkar í sjóðnum erum við einnig að boða aukin framlög í loftslagstengdra þróunarsamvinnu og það er auðvitað eitthvað sem er lagt mikið upp úr hér, þar sem að fátækari ríki heimsins sem eru að verða meira fyrir barðinu á erfiðum afleiðingum loftslagsbreytinga, eiga lengra í land á sviðum ýmissa framfara sem ríkari lönd hafa náð fram.

Við erum hér einnig að kynna hvað við erum að gera heima á Íslandi; t.d. kolefnisbindingarverkefni, jarðhitaverkefni, hringrásahagkerfið og hvað við höfum almennt verið að gera bæði í fortíð, nútíð og væntanlegri framtíð,“ segir Katrín.

Nú hafa margir gagnrýnt fundinn og fundarhaldið í kringum hann, svo ekki sé minnst á þjóðina sem heldur hann og þá hagsmuni sem hún og nágrannaþjóðir hennar eiga í olíuvinnslu. Hafa þessi atriði verið rædd og jafnvel gagnrýnd á ráðstefnunni?

„Það er náttúrulega heilmikið búið að tala um þau mál. Við erum í hópi þeirra ríkja sem viljum fá mjög skýr skilaboð frá þessum fundi um útlosun jarðefnaeldsneytis og að niðurgreiðslu olíu- og jarðefnaeldsneytis verði hætt, en umrædd niðurgreiðsla er eitthvað sem að heimurinn er heilt yfir ennþá að gera.

Það eru ekkert allir sammála um þetta hér á ráðstefnunni og það verður tekist mjög hart á um þetta og hversu langt það eigi að ganga í orðalagi í þeim efnum. Þar erum við með mjög skýra afstöðu en það eru ekkert allir þar eins og ég hef sagt,“ bætir Katrín við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert