Skjálftavirkni stöðug milli daga

Skjálftavirkni hefur haldist stöðug undanfarna daga.
Skjálftavirkni hefur haldist stöðug undanfarna daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur haldist stöðug milli daga. Náttúruvársérfræðingur segir það vel geta gerst að skjálftavirkni muni taka við sér ef land heldur áfram að rísa.

Um 370 jarðskjálftar mældust í gær nærri kvikuganginum, sem liggur undir Sýlingarfelli og Hagafelli. Mælst hafa á bilinu 300 til 400 skjálftar á dag undanfarna daga, að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.

Stærsti skjálftinn í gær mældist nærri Hagafelli 2,7 að stærð. Er það stærsti skjálfti sem mælst hefur á svæðinu síðan á mánudag.

„Við höfum fengið nokkra skjálfta í kringum 2,5 í vikunni. Þannig að þetta er allt mjög svipað og ekki stór breyting,“ segir Einar.

„Skjálftavirknin hefur haldist stöðug milli daga, en það gæti vel gerst ef landrisið heldur áfram að skjálftavirknin muni taka við sér. Við þurfum bara að bíða og sjá hvernig þetta þróast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert