Andlát: Oddur F. Helgason ættfræðingur

Oddur F. Helgason ættfræðingur.
Oddur F. Helgason ættfræðingur. mbl.is/Golli

Oddur F. Helgason ættfræðingur er látinn 82 ára að aldri. 

Oddur stundaði ættfræðirannsóknir undir merkjum ættfræðiþjónustunnar ORG ehf. sem hafði aðsetur í Skerjafirði.

Oddur fæddist 29. nóvember árið 1941 á Akureyri, sonur Helga Friðriks Helgasonar, sjómanns í Reykjavík og á Akureyri, og Sigurlínu Pálsdóttur húsmóður. Hann ólst upp á Akureyri hjá afa sínum og ömmu, Páli Jónssyni og Stefaníu Einarsdóttur.

Oddur gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Akureyri, hóf sjómennsku hjá ÚA 15 ára gamall, vann á sjó á sumrin með skóla og síðan alfarið eftir skólagöngu allt til ársins 1987.

Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1990 og stundaði þar ýmis störf. Í 60 ára afmælisgrein um Odd, sem Kjartan Gunnar Kjartansson tók saman í DV árið 2001, kemur m.a. fram að hann hafi sótt tölvunámskeið árið 1995 og byrjað þá að skrá ættfræðiupplýsingar inn á tölvu. Markvissa skráningu ættfræðiupplýsinga hóf Oddur ári síðar og ættfræðiþjónustan ORG ehf. var stofnuð 1999. Fyrstu árin var fyrirtækið til húsa á Hjarðarhaga 26 en allt frá 2002 var starfsemin í húsi ÍTR við Skeljanes í Skerjafirðinum.

Oddur kom á samvinnu við fjölda einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir um ættfræðirannsóknir, og náði að byggja upp gríðarstóran gagnagrunn sem inniheldur ættfræðiupplýsingar um hátt í 900 þúsund manns.

Eiginkona Odds frá 29. desember 1996 var Unnur Björg Pálsdóttir, f. 1954. Hún lést 28. nóvember síðastliðinn, 69 ára að aldri, eftir skammvinn veikindi. Ættfræðigrunnurinn ber nafn Unnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert