Réðst á samfanga sína

Dómur héraðsdóms féll 21. nóvember.
Dómur héraðsdóms féll 21. nóvember. mbl.is/Sigurður Bogi

Karlmaður hefur hlotið þriggja mánaða fangelsisdóm fyrir tvær líkamsárásir sem áttu sér stað í fangelsinu á Litla-Hrauni. Fyrri árásin átti sér stað í október árið 2021 en sú seinni í nóvember 2022.

Manninum var gefið að sök að hafa veist að samfanga sínum fyrir utan verslun í fangelsinu og slegið hann hnefahögg í andlit með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á neðri vör. Var maðurinn sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands í samræmi við fyrri lið ákærunnar.

Honum var einnig gefið að sök að hafa í nóvember 2022 veist að samfanga sínum við fótboltavöll í fangelsinu, slegið hann ítrekuðum hnefahöggum í andlit og gripið í og snúið upp á fótlegg hans. Hlaut samfanginn mar og bólgu í andliti, sprungu á neðri vör og liðhlaup í hnéskel. Héraðsdómur sakfelldi manninn en taldi þó ekki sannað að höggin hefðu verið ítrekuð.

Neitaði að hafa snúið upp á fót samfangans

Í lögregluskýrslu sagðist maðurinn hafa „lúbarið“ samfangann, en þá hafði honum ekki verið tjáð að hann væri með réttarstöðu sakbornings og því var ekki litið til þess við úrlausn málsins.

Í annarri lögregluskýrslu sem dómurinn leit til sagðist maðurinn í fyrstu ekki kannast við atvikið, en síðar bar hann því við að í raun hefði brotaþolinn veist að sér. Hann hefði því varið sig með höggi með „flötum hnefa“ einhvers staðar í andlit hans.

Við aðalmeðferð málsins lýsti maðurinn því að samfanginn hefði verið ógnandi. Þá kannaðist hann ekki við að hafa tekið í fót samfangans og snúið upp á hann.

Viðurlög 18 sinnum fyrir refsiverða háttsemi

Héraðsdómur taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök, að frátöldum ítrekuðum hnefahöggunum.

Dómurinn taldi ólíklegt að allir lýstir áverkar á andliti brotaþola hefðu hlotist af einu hnefahöggi en þótti óvarlegt að sakfella manninn fyrir fleiri en eitt hnefahögg að virtum framburði brotaþola við aðalmeðferð, en brotaþoli taldi að einungis hefði verið um eitt högg að ræða.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn ætti nánast samfelldan sakaferil aftur til ársins 2003, hefði 18 sinnum hlotið viðurlög fyrir refsiverða háttsemi og samtals verið dæmdur í 104 mánaða fangelsi.

Var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi og honum gert að greiða brotaþola seinni árásarinnar 350 þúsund krónur í miskabætur og rúmlega 1,4 milljónir króna í sakarkostnað málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert