Sagði upp góðu starfi til þess að flytja í Stykkishólm

Erla Friðriksdóttir, stofnandi Æðarsetursins og fyrrverandi bæjarstjóri í Stykkishólmi, var átta ára þegar hún fluttist á Snæfellsnesið.

Hún segir frá þessu í hlaðvarpsviðtali við Morgunblaðið í tengslum við 110 ára afmæli blaðsins.

„Ég flutti hingað í Hólminn þegar ég var átta ára gömul. Foreldrar mínir ætluðu upphaflega að búa hérna í eitt ár til þess að prófa að búa úti á landi. Pabbi er læknir og fékk stöðu á sjúkrahúsinu hérna í Stykkishólmi. Þetta var árið 1977 og hér er ég enn. Reyndar flutti ég til Reykjavíkur í millitíðinni. Fór í skóla og var að vinna í Reykjavík,“ segir Erla. 

Árið 2005 fluttist Erla aftur í Stykkishólm. 

„Þá var ég beðin um að taka að mér starf bæjarstjóra og ég var ekki alveg á þeim buxunum þá að að flytja. Var í mjög skemmtilegu starfi sem markaðsstjóri Smáralindar en tók þá ákvörðun að flytja aftur heim,“ segir Erla sem gegndi bæjarstjórastarfinu í fimm ár og hefur verið búsett þar síðan.

Hér er Erla Friðriksdóttir árið 2005 þegar hún tók við …
Hér er Erla Friðriksdóttir árið 2005 þegar hún tók við starfi bæjarstjóra. Það var Óli Jón Gunnarsson sem afhenti Erlu lykla að skrifstofu bæjarstjórans í ráðhúsinu í Stykkishólmi. Erla var fyrsta konan í stöðu bæjarstjóra í Stykkishólmi. Ljósmynd/Gunnlaugur Árnason

Hvað er það við þetta svæði sem togaði svona í þig?

„Ég veit hvernig það er að vera barn í Stykkishólmi og hvernig er að alast hérna upp. Það var svona það sem ég hugsaði fyrst og fremst. Það er dásamlegt að vera hér sem barn og gott að vera hér með börn. Og síðan auðvitað eyjarnar hér á Breiðafirði,“ segir Erla en fjölskylda hennar á eyjar í Breiðafirðinum sem laða að. 

„Ég hef alltaf komið hingað á sumrin og farið í eyjarnar. Núna er styttra að fara í eyjarnar.“

Þannig að þú hefur ekki verið örmagna eins og Hallgerður hér um árið þegar þú tókst þessa ákvörðun?

„Nei, þótt ég sæi eftir starfinu mínu í Smáralind þá fannst mér spennandi að koma hingað aftur.“

Feðginin Erla Friðriksdóttir og Friðrik Jónsson læknir reka dúnhreinsistöð og …
Feðginin Erla Friðriksdóttir og Friðrik Jónsson læknir reka dúnhreinsistöð og útflutningsfyrirtæki í Stykkishólmi. Myndin var tekin 2016. mbl.is/Helgi Bjarnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert