Á barmi örmögnunar og taugaáfalls

Sameer er annar drengjana sem vísa á úr landi en …
Sameer er annar drengjana sem vísa á úr landi en hann er 12 ára gamall. Ljósmyndir/Facebook/Magnús Már Einarsson

„Er ekki hægt að gera betur? Þetta fólk er gjörsamlega á barmi örmögnunar og taugaáfalls af ástandinu,“ segir Hanna Símonardóttir, fósturforeldri annars tveggja palestínskra drengja sem vísa á úr landi. 

Í samtali við mbl.is segir Hanna drengina tvo þegar örmagna af áhyggjum yfir fjölskyldu sinni, sem enn er búsett á Gasa-svæðinu, og að fregnir af andlátum fjölskyldu og vina þeirra í heimalandinu hafi streymt inn síðan 7. október. Það sé því ekki á það bætandi að þeir eigi nú einnig að hafa áhyggjur af því að vera vísað aftur til Grikklands.

Hún segir drengina þegar hafa verið orðna flóttamenn í heimalandi sínu áður en þeir flúðu Palestínu. Þeir séu nú svo uppgefnir á að því að mæta höfnun sama hver þeir snúi sér að þeir segist frekar vilja fara til Gasa og mæta örlögum sínum þar en að fara aftur á götuna í Grikklandi.

Ekkert heyrt frá foreldrum sínum eða systkinum

Hanna segir síðustu fregnir sem drengjunum hafi borist frá Gasa sé að hverfið sem foreldrar þeirra og systkini búi í hafi verið jafnað við jörðu. Þeir hafi ekki náð sambandi við fjölskylduna síðasta einn og hálfan sólarhringinn. 

Hanna og eiginmaður hennar, Einar Þór Magnússon, tóku hinn 14 ára Yazan í fóstur í vor á þessu ári en sonur þeirra og tengdadóttir tóku hinn 12 ára Sameer í fóstur til sín, en drengirnir eru systkinabörn sem hingað komu saman. 

Facebook-færsla sonar þeirra hjóna, Magnúsar Más Einarssonar, varðandi úrskurð í máli þeirra Yazan og Sameer vakti mikla athygli í gær, en Útlendingastofnun úrskurðaði gegn því að veita þeim vernd hér á landi og hyggst senda þá aftur til Grikklands. 

Getum verið fremst í flokki og gert vel

Magnús biðlar í færslu sinni til íslenskra ráðamanna að beita sér í máli þeirra frænda og þeirra fáu Palestínumanna sem hér dvelja og tekur Hanna undir það. 

„Þegar það var gert fyrir Úkraínumenn þá eltum við aðrar þjóðir. Við getum einu sinni verið fremst í flokki og gert vel,“ segir Hanna og bendir á að ekki sé um að ræða marga einstaklinga hér á landi.

Henni þyki því ekkert til fyrirstöðu að Palestínumönnum sem þegar séu hér sé veitt tafarlaus vernd, svo þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af brottvísun hangandi yfir sér ofan á allt annað. 

Fengu ekki að hitta frænda sinn í fimm mánuði

Hanna segir drengina tvo hafa komið til landsins í apríl á þessu ári eftir langa og erfiða för með bróður foreldra sinna en þeir, eins og fjölmargir á flótta, hafi endað á Grikklandi og búið þar í óupphituðum gámi við matarleysi og fátækt um nokkurt skeið. 

Drengirnir hafi að lokum komist til Íslands með frænda sínum. Þegar þeir hafi komið til landsins hafi þeim hins vegar verið stíað frá honum þar sem yfirvöld grunaði að ekki væri allt með feldu og drógu skyldleiki þeirra í efa.

Fimm mánuðum síðar hafi það hins vegar loksins verið viðurkennt að maðurinn væri í raun frændi þeirra og á nú að senda þá alla úr landi. 

Hanna segir aðstæðurnar í Grikklandi ekki við hæfi barna. Mynd …
Hanna segir aðstæðurnar í Grikklandi ekki við hæfi barna. Mynd úr safni. AFP

Aðstæðurnar í Grikklandi ekki við hæfi barna

Hanna kveðst forviða yfir svo ómannúðlegri meðferð á drengjum og Palestínumönnum almennt en aðspurð segir hún rökin fyrir því að senda eigi þá úr landi sé að þeir séu þegar með kennitölu í Grikklandi.

Hún gefur þó lítið fyrir þau rök, enda sé öllum flóttamönnum sem þangað koma skylt að sækja um kennitölu til að hljóta meðferð í máli sínu innan Evrópusambandsins og komist ekki til annarra landa án hennar.

Hún segir aðstæðurnar í Grikklandi langt frá því að vera við barna hæfi og ekkert öryggisnet eða stuðningur bíði þeirra þar.

Komust ekki á fætur eftir að frændfólk þeirra var myrt

Fjölskyldan hafi nú áfrýjað málinu til kærunefndar útlendingamála en ómögulegt sé að vita hve langan tíma meðferð málsins taki og það sé óbærilegt fyrir drengina að þurfa að hafa stanslausar áhyggjur af úrskurði áfrýjunarnefndar til viðbótar við áhyggjurnar af örlögum fjölskyldunnar á Gasa-svæðinu.

„Þeir hafa misst sitthvora tvo dagana úr skóla, það var eftir að eitthvað af frændfólki þeirra var myrt þá bara gátu þeir ekki farið á fætur daginn eftir,“ segir Hanna og bætir við að annars séu þeir báðir virkilega duglegir og samviskusamir og mæta í skóla og á fótboltaæfingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert