Íþróttahúsið sloppið merkilega vel

Stærsta sprungan í Grindavík kemur undir eitt hornið á íþróttahúsinu. …
Stærsta sprungan í Grindavík kemur undir eitt hornið á íþróttahúsinu. Það virðist óskemmt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íþróttamiðstöðin í Grindavík hefur sloppið „merkilega“ vel frá jarðhræringum í bænum. Þannig er íþróttahúsið sem stendur alveg við stærstu sprunguna sem liggur í gegnum bæinn óskemmt samkvæmt sjónskoðun að sögn Fannars Jónassonar, bæjarstjóra í Grindavík. 

„Sprungan gengur undir eitt hornið á nýja íþróttahúsinu. Hönnunin á því varð til þess að það hefur ekki orðið fyrir sjáanlegum skemmdum. Sama er uppi á teningnum varðandi önnur íþróttamannvirki í bænum ef við miðum við sjónskoðun,“ segir Fannar. 

Meðvitaðir um sprunguna 

Hann segir að menn hafi verið meðvitaðir um að sprungan gengi við íþróttahúsið og það því hannað með það í huga. „Hönnunin gerði ráð fyrir því að húsið myndi þola einhverjar hreyfingar, einhverja gliðnun, og ekki annað að sjá en það hafi gengið eftir,“ segir Fannar. 

Íþróttamiðstöín stendur við stærstu sprunguna sem liggur í gegnum bæinn.
Íþróttamiðstöín stendur við stærstu sprunguna sem liggur í gegnum bæinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir að Hópskóli og skólinn við Ásabraut hafi ekki orðið fyrir alvarlegum skemmdum. Eina eign bæjarins sem orðið hefur fyrir verulegum skemmdum er dvalarheimilið Víðihlíð. Annars staðar eru lítils háttar skemmdir á mannvirkjum bæjarins. 

Fannar segir erfitt að meta tjón bæjarins á þessari stundu. Ekki síst helgist það af því að grafa þarf upp lagnir bæjarins og veitukerfi til þess að skoða hvað það er sem þarf að lagfæra.

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkurbæjar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kostnaður metinn síðar 

„Það er vitað að þarna eru skemmdir en erfitt að meta heildartjónið fyrr en búið er að gera við þar sem það þarf. Stærsta viðgerðin snýr að lögn sem liggur á um tvö hundruð metra kafla. Það er sá hluti fráveitukerfisins sem fór verst. Þetta skýrist ekki almennilega hvað varðar kostnað og umfang fyrr en verkefninu er lokið,“ segir Fannar. 

Rafmagn, heitt vatn og ljósleiðari eru ekki á höndum bæjarins. Grindavík sér hins vegar um kalda vatnið og að sögn Fannars hefur tekist að koma kalda vatninu á stærstan hluta bæjarins. „Á heildina litið er vinnan við að koma hlutunum í rekstur langt komin,“ segir Fannar. 

Dvalarheimilið Víðihlíð fór illa út úr skjálftunum.
Dvalarheimilið Víðihlíð fór illa út úr skjálftunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert