Sorpa kynnir gjaldskrárhækkun

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir gjaldskrána endurspegla vilja eigenda …
Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir gjaldskrána endurspegla vilja eigenda í kringum urðunarstaðinn í Álfsnesi. Verið sé að þrengja verulega að urðun með nýju eigendasamkomulagi. Ljósmynd/Sorpa

Gjaldskrá Sorpu tekur breytingum 1. janúar 2024. Gert er ráð fyrir að tekjur hækki um 12% milli ára sem er óveruleg hækkun á almennu verðlagi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sorpu.

Yfir 100% hækkun á 25 gjaldaliðum

Ef komandi gjaldskrá er skoðuð kemur í ljós að af 93 gjaldaliðum ársins 2024 hækka 25 þeirra um meira en 100%.

Allir þeir 25 gjaldaliðir eiga við urðunarstað en mest hækkun verður á menguðum uppgreftri eða frá 12,18 krónum á kílóið í 49,96 krónur á kílóið. Sú hækkun nemur um 310%.

Fimm gjaldaliðir lækka: einn á urðunarstað og fjórir á móttöku- og flokkunarstöð. Mesta lækkun verður á móttöku filmuplasts eða 100%. Árið 2023 kostaði 21,34 krónu á kílóið að skila filmuplasti en árið 2024 verður það gjaldfrjálst. Þá lækkar gjald á móttöku- og flokkunarstöð á garðaúrgangi, trjágreinum og vörubrettum og viðarumbúðum frá 5,25% til 34,75%.

Gjald fyrir móttöku á ómáluðu timbri á urðunarstað lækkar þá um tæp 28%. 

Í tilkynningunni segir að hækkun á gjaldskrá á urðunarstað sé fyrst og fremst til komin vegna verulegrar minnkunar á magni til urðunar. Helsta ástæða minnkunarinnar er sú að sá blandaði úrgangur sem hingað til hefur verið urðaður í Álfsnesi verður sendur til orkuvinnslu í Svíþjóð allt næsta ár.

Þá segir að orkuvinnsla með þessum hætti sé skárri leið til að meðhöndla úrgang en urðun, og skör ofar í úrgangsþríhyrningnum.

Þá segir að aðrar breytur sem valdi breytingum á gjaldskrá séu meðal annars fjárfestingar á urðunarstað til að bæta ásýnd og gassöfnun á urðunarstað, bann við urðun á lífrænum úrgangi á urðunarstað og fleira.

Hóflegustu gjaldskrárhækkanirnar eru á gjaldaliðum á endurvinnslustöðvum Sorpu.
Hóflegustu gjaldskrárhækkanirnar eru á gjaldaliðum á endurvinnslustöðvum Sorpu. mbl.is/Árni Sæberg

Verið að þrengja verulega að urðun

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir gjaldskrána endurspegla vilja eigenda í kringum urðunarstaðinn í Álfsnesi.

Segir Jón í samtali við mbl.is að verið sé að þrengja verulega að urðun með nýju eigendasamkomulagi.

„Þar er gert ráð fyrir því að við förum að flytja út og drögum verulega úr urðun. Í dag erum við að urða um 70 þúsund tonn á ári en gert er ráð fyrir að urðuð verði um 15-20 þúsund tonn á næsta ári.“

Segir Jón urðunarstaðinn risastóran og að hann taki til sín mikinn kostnað.

„Við þurfum að halda úti góðum rekstri á staðnum svo okkur er nauðugur einn kostur að hækka urðunina en ef fyrirtæki og einstaklingar eru duglegir að flokka í réttu flokkana sem nú er bundið í lög þá ættu þessi áhrif að verða lítil.

Fyrirtæki og einstaklingar geta þá dregið úr urðuðu magni til að mæta gjaldskrárhækkuninni. Þetta á að hvetja alla til að flokka.“

Í sambandi við gjaldskrárhækkanir á móttöku- og flokkunarstað segir Jón Viggó að bæði laun og verktakakostnaður hafi hækkað og því hafi þurft að hækka einhverja gjaldaliði til að mæta þeirri kostnaðaraukningu.

Þá segir hann að endurvinnslustöðvarnar séu reknar alveg sér og það endurspeglist í hóflegum gjaldskrárhækkunum þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert