„Það er ekki langt í að það verði slys“

Sigurlaug segir viðbrögð verslunarstjóra skjót og góð og vonar að …
Sigurlaug segir viðbrögð verslunarstjóra skjót og góð og vonar að verslunin sýni orð í verki. Ljósmynd/Aðsend/Eggert Jóhannesson

Móðir stúlku sem fannst nakin og grátandi á baðherbergi Småland leiksvæðisins í IKEA segir aðkomuna að dótturinni hafi verið erfiða. Hún segir verslunarstjóra hafa haft samband og lofað breytingum og kveðst vona að verslunin sýni orð í verki. 

„Þau segjast hafa eytt morgninum í að fara yfir verkferla með starfsfólki í Smålandi og að þeirri vinnu verði haldið áfram, meðal annars með því að senda fólk á námskeið,“ segir Sigurlaug í samtali við mbl.is. 

Sigurlaug fór með dóttur sína í IKEA nú á dögunum og leyfði dótturinni að fara í Småland, leiksvæði verslunarinnar fyrir börn á aldrinum þriggja til sjö ára, en kom að barninu í heldur annarlegu ástandi. 

Lokuðu hliðinu á tveggja ára dótturina

Kveðst Sigurlaug hafa beðið sérstaklega um það að starfsmenn hringdu í hana ef dóttir hennar óskaði þess að yfirgefa leiksvæðið, en dóttir hennar er fjögurra ára gömul. Ekkert símtal hafi þó borist og Sigurlaug sótti dótturina að innkaupum loknum. 

Þegar hana hafi borið að garði hafi dótturina hvergi verið að finna og starfsmennirnir ekki virst mjög stressaðir yfir því. Þeir hafi ítrekað kallað á hana og spurt út í klæðnað hennar þar til Sigurlaug hafi spurt hvort ekki væri betra að hún færi sjálf inn að leita. 

Sigurlaug sem segir starfsmann hafa ýtt hinni dóttur hennar, sem er aðeins tveggja ára gömul, frá og lokað hliðinu þegar hún ætlaði að elta móður sína inn á leiksvæðið.

Sigurlaug ásamt dóttur sinni.
Sigurlaug ásamt dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Upplifa dónaskap og skeytingarleysi frá starfsfólki

Dóttirin hafi á þeirri stundu fundist ein inni á klósetti, nakin og útgrátin, og segir Sigurlaug að útlit hafi verið fyrir að hún hafi verið þar grátandi um nokkurn tíma. 

Segir Sigurlaug starfsmönnunum ekki hafa virst sérstaklega brugðið yfir ástandinu á barninu og nánast eins og þetta væri venjulegt. 

Greindi Sigurlaug frá upplifuninni í Facebook-hópnum Mæðra Tips og segir ekki hafa staðið á viðbrögðum frá öðrum mæðrum í hópnum sem sumar hverjar lýstu einnig slæmum upplifunum af leiksvæðinu. 

„Þetta er búið að vera í umræðunni, meðal annars á Mæðra Tips, lengi. Fólk er ekki ánægt,“ segir Sigurlaug og nefnir að margir upplifi viðmót starfsmanna sem dónalegt og einkennast af skeytingarleysi gagnvart börnunum.

Aðrar mæður kváðust einnig ósáttar með viðmót starfsfólks í Småland, …
Aðrar mæður kváðust einnig ósáttar með viðmót starfsfólks í Småland, í athugasemdum við færslu Sigurlaugar. Ljósmynd/Ikea

Ekki hringt í foreldra þrátt fyrir beiðnir barnanna 

Hún segir mikilvægt að IKEA endurskoði verkferla sína þar á meðal mönnun miðað við barnafjölda. Þegar hún hafi komið að dóttur sinni hafi aðeins einn starfsmaður verið að annast börnin á meðan hinn sinnti afgreiðslu, en reglum samkvæmt eigi að vera mest átta börn á hvern starfsmann.

„Það er ekki langt í að það verði slys, verði því ekki breytt.“

Hún kveðst hafa komist að því að dóttir hennar hafi óskað eftir því að vera sótt áður en hún fór á klósettið. Starfsmaðurinn hafi þá sagst ekki hafa komist í það að hringja í hana vegna anna. 

„Sem er ekkert skrítið ef hann er einn með 16 börn á meðan hinn er bara að sinna afgreiðslunni,“ segir Sigurlaug og bætir við að fleiri mæður lýsi því að ekki hafi verið hringt í þær þrátt fyrir að börnin grátbiðji um það. 

Ekki alveg tilbúin að fara aftur

Sigurlaug segir það vissulega hafa verið gott að heyra frá verslunarstjóra IKEA, Guðnýju Camillu Aradóttur, sem hafi brugðist skjótt og vel við.  Hún hafi tjáð Sigurlaugu að henni þætti atvikið mjög miður og að hún hefði fengið sting í hjartað við að heyra af því.

Segir hún Guðnýju hafa boðið dótturinni að koma aftur í Småland fyrir opnunartíma til að upplifa sig örugga þar á ný. Kveðst Sigurlaug þó ekki alveg tilbúin að þiggja boðið strax, enda séu þær mæðgurnar enn smá eftir sig. 

„Ég þarf alveg einhvern tíma, ég þarf líka að sjá breytingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert