Harma „afskaplega leiðinlegt slys“ við flugstöðina

Slysið varð á langferðabifreiðastæði við komuútgang flugstöðvarinnar.
Slysið varð á langferðabifreiðastæði við komuútgang flugstöðvarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við getum staðfest að þetta gerðist hjá okkar starfsmanni þetta leiðinlega atvik og að þarna var um afskaplega leiðinlegt slys að ræða,“ segir Hjörvar Sæberg Högnason, framkvæmdastjóri langferðabifreiðafyrirtækisins Airport Direct, um það atvik þegar ferðamaður varð fyrir einni bifreiða fyrirtækisins á stæðinu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í gærmorgun.

Betur fór en á horfðist og var konan föst undir bifreiðinni um tíma áður en hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún nýtur nú umönnunar og er ekki í lífshættu eftir því sem Hjörvar hefur fengið upplýsingar um.

Margir hafi óttast

Hefur atvikið verið til umræðu í Facebook-hópnum „Hið raunverulega bakland ferðaþjónustunnar“ þar sem einn hópverja tjáir sig um atvikið og kveður marga hafa óttast að til slyss kæmi við aðstöðu langferðabifreiða við flugstöðina.

Ritar sá að Isavia, sem annast rekstur stöðvarinnar, virðist sama um öryggi fólks eftir að það yfirgefur bygginguna. „Vonandi mun Isavia nú bregðast við og stýra umferð gangandi betur, td [sic] girða af og skilja á milli gangandi vegfarenda og umferðar,“ segir þar enn fremur.

Hjörvar segir lögreglu annast rannsókn málsins sem nú fari í hefðbundinn farveg. „Ég veit ekki hvaða umræða er í gangi á Facebook eða öðrum miðlum, við erum með okkar rekstrarstjóra og hann er í reglulegu sambandi við okkar tengiliði hjá Isavia. Ég þykist vita að það verði skoðað núna eftir að þetta gerðist hvort eitthvað sé hægt að gera til að koma í veg fyrir að svona hlutir gerist,“ segir hann enn fremur. „Þetta er fyrst og fremst slys og við eigum enn eftir að fá betri mynd af því hvað raunverulega gerðist og hvernig þetta vildi til,“ segir Hjörvar að lokum.

Mildi að ekki fór verr

Frá Isavia barst sú yfirlýsing að fyrirtækinu þætti mikilvægt að gefa lögreglu svigrúm til að ljúka rannsókn sinni á þessu hræðilega óhappi og væri mikil mildi að ekki hafi verr farið. „Isavia mun að sjálfsögðu, eftir sem áður, leggja sitt af mörkum til að tryggja öryggi farþega á Keflavíkurflugvelli. Þetta atvik, eins og önnur á vellinum, er skoðað með hliðsjón af því og er sú vinna þegar hafin,“ segir þar.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is að málið væri í rannsókn og væri honum ekki kunnugt um að lögreglu hefðu borist nokkra upplýsingar eða ábendingar um að öryggismálum væri ábótavant á langferðabifreiðastæðinu við flugstöðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert