Sérsveitin kölluð út í verslun á Laugavegi

Sérsveit lögreglunnar var kölluð að versluninni Attikk við Laugaveg um …
Sérsveit lögreglunnar var kölluð að versluninni Attikk við Laugaveg um kvöldmatarleytið í kvöld vegna hnífaburðar en um hóp fólks var að ræða samkvæmt framkvæmdastjóra Attikk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vopnuð sérsveit lögreglu var kölluð út í verslunina Attikk við Laugaveg á sjöunda tímanum í kvöld vegna hóps fólks í versluninni þar sem að minnsta kosti einn í hópnum hafði hníf á lofti.

Þetta staðfestir Ýr Guðjohnsen, framkvæmdastjóri Attikk, í samtali við mbl.is.

„Ég get staðfest að sérsveitin var kölluð út vegna hnífaburðar,“ segir Ýr sem sjálf var ekki á staðnum, „þetta voru nokkrir einstaklingar en ég get ekki staðfest hverjir voru með hníf og hverjir ekki.“

Kveðst hún ekki hafa vitað um hvað málið snerist og hefði fólkið ekki haft uppi sérstakar kröfur, svo sem eitthvað sem benti til þess að um rán hefði verið að ræða. Ekki vildi Ýr heldur staðfesta hvort sérsveitarmenn hefðu komið inn í verslunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert