Þurfum að horfast í augu við börnin okkar

Ólöf segir ekkert í niðurstöðum Pisa-könnunarinnar, sem birtar voru í …
Ólöf segir ekkert í niðurstöðum Pisa-könnunarinnar, sem birtar voru í dag, hafa komið sér á óvart. Ljósmynd/Ólöf Sigurbjörg Sigurðardóttir

Ólöf Sigurbjörg Sigurðardóttir hefur orðið vör við gríðarlegar breytingar þegar kemur að ástundun barna í námi á sínum tæplega þrjátíu ára kennaraferli. Hún segir samfélagið þurfa að hysja upp um sig buxurnar og setja börnin í forgang, bæði hvað varðar heimalestur og uppeldi.

Ólöf hefur verið kennari í hartnær þrjátíu ár og starfað stærstan hluta ferilsins sem skólastjóri. Nú starfar hún hins vegar sem forfallakennari og rekur fyrirtækið Aukakennari ásamt Fanneyju Ófeigsdóttur. Fyrirtæki sem býður upp á fjölbreytta afleysingaþjónustu bæði fyrir leik- og grunnskóla.

Vegið að framtíð barnanna

Ólöf segir ekkert í niðurstöðum Pisa-könnunarinnar, sem birtar voru í dag, hafa komið sér á óvart.

„Við sem erum í skólunum og erum á gólfinu erum margbúin að segja þetta og fylgjast með. Þannig að það er ekkert í þessu sem kom mér á óvart. Ég hefði alveg geta sagt þér það í gær að þetta yrði einhver svakaleg niðurstaða, sem mér finnst þetta vera,“ segir Ólöf.

Hún segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að bregðast við slöku gengi nemenda á Íslandi í lesskilningi, enda grafalvarlegt að einungis 40% fimmtán ára nemenda nái 40% lámarksviðmiðum í lesskilningi.

„Það er virkilega vegið að þeirra framtíð ef að þetta er staðan,“ segir Ólöf og bætir við að framtíð þeirra, og það framhaldsnám sem þeirra bíður, muni verða þeim mjög erfitt ef ekki verður gripið í taumana.

„Þetta eru mikil tækifæri sem þau eru mögulega að fara á mis við.“

Ekki lausnin að fara í kerfisbreytingar

Ólöf segir ekki raunhæft að fara í stórkostlegar kerfisbreytingar til að vinna bug á vandanum. Hún kveðst ekki þeirrar trúar að kerfið hafi brugðist börnunum enda segir hún það ekki ávallt lausnina að kalla eftir aukinni sérfræðiþjónustu og „hinu og þessu.“

„Margt af því sem við erum að kalla eftir getum við hæglega dregið úr með því að vera duglegri að sinna börnunum heima. Þetta er ekki það fyrsta sem fólki finnst gaman að heyra, en þetta er engu að síður eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við.“

Meira áberandi nú en áður að heimalestri sé ekki sinnt

Hún segist hafa upplifað miklar breytingar á þeim árum sem hún hefur starfað sem kennari. Aðallega upplifir hún minnkandi virðingu fyrir menntun og minni áherslu á lestur, svo dæmi séu tekin. Þá segir hún foreldra almennt lesa minna, hvort sem það er fyrir sig sjálf eða börnin sín, auk þess sem foreldrar láti börnin sín ekki lesa jafn mikið og áður tíðkaðist.

„Það er meira áberandi nú en áður að heimalestri er ekki sinnt,“ segir Ólöf og áréttar mikilvægi þess að æfa sig til að ná árangri. Það sé, og hafi ávallt verið, óhugsandi að ná upp æfingu eða þjálfun, þegar æfingarnar fara einvörðungu fram í skólastofunni, og standa hugsanlega einungis yfir í tíu mínútur í senn. 

„Það þarf enga vísindamenn til að segja okkur það að ef þú æfir þig ekki þá verður árangurinn eftir því.“

Lestur má ekki víkja fyrir tómstundum barna og fullorðinna

Ólöf segir samfélagið hafa mikið breyst á þeim árum sem hún hefur starfað sem kennari, hér áður hafi samfélagið og fjölskyldurnar verði sterkari í því að vega upp á móti þeim lestraræfingum sem fram fara í skólastofunni.

„Þessu var betur sinnt. Fólk hafði að einhverju leyti meiri skilning á því að þetta þyrfti að gera saman. Fólk hafði rýmri tíma þegar vinnu lauk, samt vann fólk ekkert minna, það vann oft meira, en þegar vinnu lauk að þá tók barnauppeldið við. En nú eru bæði börn og fullorðnir mjög uppteknir í frístundastarfi sem er mjög tímafrekt,“ segir Ólöf og bætir við að hún sé alls ekki að tala gegn tómstundastarfi barna eða fullorðinna.

„Ég er alls ekki að tala gegn því að börn séu í íþróttum. Mér finnst það frábært, að bæði börn og fullorðnir hreyfi sig. Þetta snýst ekki um að fólk eigi ekki að hreyfa sig heldur að þetta [lestur] megi ekki víkja,“ segir hún enda lestur grunnurinn að öllu námi sem á eftir kemur.

Ástandið í kennslustundum víða grafalvarlegt

Ólöf leggur mikla áherslu á að samfélagið þurfi að gera betur til að bæta stöðuna. Bæði með því að verja meiri tíma í lestur en jafnframt í almennt uppeldi. Hún segir mikilvægt að kenna kurteisi, muninn á réttu og röngu, og að börnum séu sett mörk.

„Það er eitthvað sem of oft er ósagt að mjög víða í kennslustundum er ástandið grafalvarlegt, mikið agaleysi og mikil upplausn. Það eru örfáir nemendur sem líður mjög illa og illa gengur að ná til, þeir trufla mikið og árangurinn eftir því. Bæði hjá þeim og hinum sem ekki ná að sinna náminu á meðan.“

Skortir hugrekki til að ganga í flokk óvinsælla foreldra

Hún segir það skorta að málin séu rædd og að farið sé yfir hvernig eigi að haga sér, hvað sé við hæfi. „Skólinn getur ekki kennt þetta einn,“ segir Ólöf og bætir við að langflestir foreldrar séu að standa sig vel. Þrátt fyrir það þurfi bæði skólinn og aðstandendur barnanna að gera betur.

„Maður þarf að þora að ganga í flokk óvinsælustu foreldra á Íslandi, ég hef verið í honum og margir aðrir, sem segja stundum nei. Stundum bara hentar það ekki, stundum þarf bara að læra og við þurfum að sinna því, það er bara stundum þannig.“

Þurfum að gera þetta sem samfélag 

„Það er oft sagt á tyllidögum að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn,“ segir Ólöf og útskýrir að í því felist að bæði foreldrar, ömmur og afar, og aðrir þeir sem standa börnunum næst, þurfi að gefa meira af tíma sínum til barnanna. 

Hvort sem þeim tíma sé varið í að lesa fyrir börnin eða varið í afþreyingu sem felst í því að málið sé notað, að það sé verið að tala saman, segir Ólöf. 

„Við getum gert svo mikið ef við snúum bökum saman og ákveðum að breyta þessu. Það getum við gert saman, ekki skólinn einn og ekki fjölskyldurnar einar,“ segir Ólöf og bætir við:

„Ég er hreint ekki að segja að skólinn sé fullkominn, það er alveg fullt hægt að gera þar. En ég held að við þurfum að gera þetta sem samfélag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert