Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar samþykkt

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn um miðnætti. Gert er ráð fyrir batnandi afkomu A- og B-hluta og að A-hluti skili jákvæðri niðurstöðu ári fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir. 

Í tilkynningu Reykjavíkurborgar segir að í fjárhagsáætlun 2024 og fimm ára áætlun 2024-2028 sem samþykkt var í borgarstjórn um miðnætti sé gert ráð fyrir tæplega 600 milljóna króna jákvæðri rekstrarniðurstöðu A-hluta sem fari síðan batnandi út áætlunartímabilið til samræmis við markmið fjármálastefnu.

Skuldastaða helmingi lægri en 2010

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, sagði við upphaf umræðunnar í borgarstjórn í gær að það væri góð tilfinning að koma í seinni umræðu á þessum fallega desemberdegi og kynna með stolti sína elleftu fjárhagsáætlun. 

„Það er ekkert nýtt að í rekstri sveitarfélaga þurfi að horfa í hverja krónu,“ sagði borgarstjóri og sagði skuldastöðu borgarinnar í heild um helmingi lægri en þegar meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við árið 2010.

Sagði hann að hagræðingaraðgerðir á yfirstandandi ári hafi skilað viðsnúningi upp á 10 milljarða sem sé nokkuð betri en gert var ráð fyrir og þakkaði sérstaklega starfsfólki, stjórnendum og fyrirtækjum borgarinnar fyrir samstillt átak og fjármálasviði fyrir styrka stjórn.

Stærsti áhættuþátturinn samskipti við ríkið

Sagði Dagur einn stærsta áhættuþáttinn í rekstri borgarinnar vera fjárhagsleg samskipti við ríkið og það vera afar mikilvægt að takist að stoppa það gat sem hefur myndast þar sem allra fyrst.

Þegar horft sé til framtíðar verði áfram unnið að því að vaxa úr vandanum þar sem haldið verður áfram að þróa og byggja betra borgarsamfélag enda flykkist fólk til Reykjavíkur til búsetu og atvinnulífið blómstrar.

Hægt er að kynna sér frumvarpið og greinagerðir í heild sinni hér:

Frumvarp að fjárhagsáætlun 2024

Greinargerð með fjárhagsáætlun 2024 og fimm ára áætlun 2024-2028

Greinargerð fagsviða og b-hluta fyrirtækja með fjárhagsáætlun 2024

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert