Haraldur hlýtur Kærleikskúluna

Haraldur tók á móti Kærleikskúlunni í dag.
Haraldur tók á móti Kærleikskúlunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Athafnamaðurinn Haraldur Þorleifsson hlýtur Kærleikskúluna í ár. Kúlan var afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur í dag en þetta er í 21. Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út. 

Ár hvert velur Styrktarfélagið handhafa Kærleikskúlunnar, einhvern sem hefur með verkum sínum breytt viðhorfum og bætt líf samborgara sinna og samfélag, vakið athygli á mikilvægum gildum og sjálfsögðum réttindum.

„Haraldur hefur látið til sín taka á mörgum sviðum samfélagsins, sem frumkvöðull, athafnamaður, hönnuður, tónlistarmaður og mannvinur. Hann er baráttumaður fyrir mannréttindum og betra samfélagi og hefur vakið þjóðarathygli fyrir framgöngu sína í verkefninu Römpum upp Ísland sem hefur það að markmiði að bæta aðgengi fatlaðs fólks í samfélaginu en Haraldur rampaði upp Reykjadal árið 2022,“ segir í tilkynningu frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. 

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, með Kærleikskúluna.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, með Kærleikskúluna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðjón hannaði kúluna

Kærleikskúlan í ár ber heitið Heimur og er eftir Guðjón Ketilsson.

Guðjón er einn fremsti og afkastamesti listamaður landsins og hlaut hann Íslensku myndlistarverðlaunin árið 2020. Hann vinnur að jöfnu að gerð teikninga og skúlptúra þar sem handverkið er í forgrunni. Verk hans rýna í mannlegt eðli, líkamann og hversdagslegt umhverfi þar sem kunnuglegir hlutir, form, orð eða ritaður texti eru dregin fram í nýju og gjarnan óvæntu samhengi.

Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra
Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það er Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna sem hjúpar Kærleikskúluna árið 2023. Kúlan verður hér til sem listgripur á Íslandi þegar 75 ár eru liðin frá því að sáttmálinn var staðfestur til þess að vinna að friðsamlegum samskiptum þjóða. Yfirlýsingin kveður á um mannréttindi sem allir eiga tilkall til óháð kynþætti, litarhætti, kynferði, tungu, trú, skoðunum, þjóðerni, uppruna, eignum, ætterni eða öðrum aðstæðum. Sköpun Kærleikskúlunnar á sér því uppsprettu í sammannlegri samhygð, náungakærleika og von um friðsamlegri samskipti þjóða.

Allur ágóði af sölu Kærleikskúlunnar rennur til sumarbúðanna í Reykjadal. Sölutímabil Kærleikskúlunnar er 7.-21. desember. Kærleikskúlan kemur í takmörkuðu upplagi og er fáanleg í völdum verslunum um land allt og netverslun SLF, kærleikskúlan.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert