Ísland ítrekað lýst áhyggjum af Sellafield

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. mbl.is/Óttar

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra segir allar fréttir um vandamál í Sellafield vera áhyggjuefni og að Ísland muni fylgjast vel með vendingum í málum kjarnorkuvinnslustöðvarinnar.

„Þetta er alveg gríðarlegt magn af kjarnorkuúrgangi og geislavirkum efnum sem mega ekki sleppa út í umhverfið,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við mbl.is.

Breska dagblaðið Guardian greindi í gær frá leka úr stóru sílói í stöðinni, sem geymir geislavirkan úrgang, og sögðu lekann síversnandi. 

Sellafield kjarnorkuvinnslustöðin í Bretlandi.
Sellafield kjarnorkuvinnslustöðin í Bretlandi. AFP/Sellafield

Geta komist út í umhverfið við slys eða árás

„Ísland hefur ítrekað lýst áhyggjum af Sellafield í gegn um tíðina,“ segir Guðlaugur og bendir á að þrýstingur frá stjórnvöldum í Noregi, Írlandi og Íslandi hafi orðið til þess að Sellafield lét af því að losa technetium-99 í hafið á sínum tíma.

„Þetta er mikið magn af geislavirkum efnum og þau geta komist út í umhverfið við slys eða árás,“ segir Guðlaugur sem segir ráðuneytið nú vinna að því að afla sér frekari upplýsinga hjá breskum stjórnvöldum auk þess að bera saman bækur sínar við Noreg og Írland á ný.

„Allt sem að snýr að hafinu, sama hvort það er nær eða fjær, það er áhyggjuefni og eitthvað sem að varðar okkur Íslendinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert