Tekin í Leifsstöð með milljónir á leið úr landi

Fólkið var stöðvað í Leifsstöð þar sem það hafði fúlgur …
Fólkið var stöðvað í Leifsstöð þar sem það hafði fúlgur fjár meðferðis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglustjóranum á Suðurnesjum er heimilt að skoða innihald snjallsíma í máli sem lögreglan hefur til rannsóknar og tengist meintu peningaþvætti og útflutningi á reiðufé. 

Þetta er niðurstaða úrskurðar Landsréttar frá því í gær sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness sem var kveðinn upp 29. nóvember. 

Lögreglustjórinn fór fram á heimild til að rannsaka rafrænt efnisinnihald iPhone-farsíma sem lögreglan lagði hald á í fórum manns. Var þess krafist að heimild næði til leitar, skoðunar og afritunar á þeim rafrænu gögnum sem síminn kynni að geyma og þeim skýjaþjónustum sem hefðu verið notaðar með símanum. 

Rúmar fjórar milljónir króna

Fram kemur að maðurinn hafi verið stöðvaður ásamt konu af tollgæslu í Leifsstöð er þau voru á leið úr landi. Við leit tollvarða fundust samtals 29.730 evrur, sem jafngildir um 4,5 milljónum kr., og 26.000 kr. í reiðufé í fórum fólksins, þar af var maðurinn með samtals 4.000 evrur og 26.000 krónur.

Fólkið gat ekki gefið upp með skýrum hætti hver lögmætur uppruni fjármunanna væri og var því handtekið og flutt á lögreglustöð. Lögreglan lagði svo hald á fjármunina og farsímana.

Í framhaldinu voru teknar skýrslur af þeim. Maðurinn hélt því fram að það reiðufé sem hann hefði meðferðis væri hans eign og það væri launagreiðslur fyrirtækis sem væri í eigu konunnar og sparnaður. Maðurinn kvaðst vera á atvinnuleysisbótum núna.

Vildi ekki leyfa lögreglunni að skoða innihald símans

Þá neitaði hann að heimila lögreglu afritun og rannsókn á innihaldi símans sem hann hafði meðferðis við handtöku. Hann kvað það vera einkamál sem væri í símanum.

Héraðsdómur og síðan Landsréttur voru aftur á móti á öðru máli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert