„Þungbær staða að vera í“

Fjóla Steindóra Kristinsdóttir kveður stöðuna þungbæra en stjórnendur Árborgar horfi …
Fjóla Steindóra Kristinsdóttir kveður stöðuna þungbæra en stjórnendur Árborgar horfi björtum augum fram á veginn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við erum í fjárhagsáætlun sem byggir á aðgerðaáætlun sem við sömdum um við innviðaráðuneytið eða í raun eftirlitsnefndina [eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga],“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, sveitarstjóri Árborgar, í samtali við mbl.is um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins sem nokkuð hefur verið til umræðu í fjölmiðlum.

Eins og mbl.is greindi frá í júlí samþykkti bæjarráð þá samhljóða lántöku að fjárhæð 1,37 milljarða til tveggja ára með það fyrir augum að fjármagna sveitarfélagið í gegnum eignir í söluferli.

„Við sömdum um það við eftirlitsnefndina að fara í aðgerðir og þær fela í sér ýmsar hækkanir á gjaldskrám,“ heldur Fjóla áfram, „sveitarfélögin eru að hækka um 7,5 til 8,0 prósent, við erum með 7,7 prósent en svo erum við náttúrulega að fara í álag á útsvar,“ segir hún.

Dýrt að skulda í svona árferði

Segir hún fjárhagsstöðu sveitarfélagsins mjög þrönga og hafi ytri aðstæður þar síst unnið með bæjarráðinu, sveitarfélagið sé eingöngu með verðtryggð lán og þar með hafi verðbólga, vextir og fjármagnsgjöld verið þungbær. „Það er dýrt að skulda í svona árferði og auðvitað er það þannig að við þurfum að horfa í hverja krónu og erum að hagræða og vinna í því eins og við getum en á sama tíma er höfuðstóll lánanna okkar að hækka,“ segir sveitarstjórinn.

Samtímis þessu öllu saman hafi verið farið í miklar aðgerðir og áfram verði haldið á þeirri braut – ábyrgð og festa sýnd við gerð fjárhagsáætlana. „En þetta er auðvitað þungbær staða að vera í, að þurfa að fara í þessar hækkanir, ég ætla ekki að ljúga neinu um það,“ segir Fjóla.

Hvernig skyldi henni þá lítast á stöðuna næstu misserin?

„Ég er alveg bjartsýn á að þetta muni skila sér ef við berum gæfu til að fylgja áætluninni, við erum með flott starfsfólk sem er að vinna að henni og við þurfum bara að halda áfram að horfa í hverja krónu og vera útsjónarsöm og stundum að hugsa út fyrir kassann en þetta er bara einn liður í því að sækja tekjur sem við gerum okkur grein fyrir að við ætlum ekki að gera nema tímabundið,“ útskýrir sveitarstjórinn.

Erfiður ljár í þúfu

Segir hún að þær aðgerðir sem nú standi yfir varðandi að sækja tekjur í harðærinu muni aldrei standa lengur en eitt til tvö ár að hámarki. „Og segjum sem svo að verðbólga, vextir og annað lækki, þá auðvitað endurskoðum við þetta jafnóðum, sveitarfélag á bara að vera á núlli og veita þjónustu en við þurfum að hafa efni á þeirri þjónustu,“ segir Fjóla.

Hún játar að gjaldskrárhækkanirnar séu mörgum erfiður ljár í þúfu og um þær hafi sprottið umræða um helgina. „Þetta er 1,474 prósentustig sem útsvarið er að hækka um, á sínum tíma hækkaði Reykjanesbær um 3,62 prósentustig og fór í 25 prósent álag. Um þetta vill ríkja misskilningur, fólk heldur stundum að við séum að hækka um tíu prósent sem er misskilningur,“ áréttar Fjóla.

Kveðst hún hafa fullan skilning á því að róður margra sé þungur og nefnir þar ungt fólk sem dæmi og fólk almennt sem berjist í bökkum við að halda íbúðalánum í skilum á meðan matarkarfan hækki og lífið verði dýrara.

Horfa bjartsýn til framtíðar

„En við erum að grípa til þessara aðgerða tímabundið og það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að eftirlitsnefndin leggur það til. Við erum auðvitað að huga að alls konar söluaðgerðum og við vinnum á mörgum vígstöðvum sem mun mögulega skila einhverju en við gerum ekki ráð fyrir neinu slíku, við setjum ekki inn í fjárhagsáætlun sölu sem er ekki í hendi, við horfum bara á þá þætti sem við höfum stjórn á. Samtímis því horfum við bara bjartsýn til framtíðar, þetta er bara það sem við stöndum frammi fyrir og verðum að takast á við, á því berum við ábyrgð,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, sveitarstjóri Árborgar, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert