Útlit fyrir tvær lægðir í næstu viku

Heilt yfir hefur verið mikil veðurblíða á landinu undanfarið, þó …
Heilt yfir hefur verið mikil veðurblíða á landinu undanfarið, þó ekki skilgreini allir veðurblíðu eins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlit er fyrir breytingar í veðrinu undir miðja næstu viku þegar lægðabraut færist yfir landið með lægðum í suðvestri.

Þetta kemur fram á Bliku, veðurvef Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings.

Í samtali við mbl.is segir Einar þó ekki útlit fyrir að um sé að ræða varanlega breytingu á veðrinu hér á landi.

Frost fór á nokkrum stöðum yfir 20 stig í nótt 

Heilt yfir hefur verið mikil veðurblíða á landinu undanfarið, segir Einar sem setur þó þann fyrirvarann á að það skilgreini ekki allir veðurblíðu með sama hætti. Það sé þrátt fyrir það búið að vera þurrt í veðri, í að verða hálfan mánuð, eða frá því það gerði vestan átt sem olli meðal annars truflunum á flugi upp úr 20. nóvember.

Einar segir allar líkur á að þessi veðurblíða verði áfram fram yfir helgi, með frosti líkt og verið hefur á þekktum stöðum inn til landsins á Norðurlandi, en í nótt fór frost á nokkrum stöðum yfir 20 stig. Kaldast var í Möðrudal á fjöllum þar sem frost mældist 23,9 stig.

Líklegt að það muni kólna á höfuðborgarsvæðinu og suðurlandi þegar …
Líklegt að það muni kólna á höfuðborgarsvæðinu og suðurlandi þegar austan áttin, sem hefur verið að blása með ströndinni, gefur sig. Kort/Blika

Ef raki og milt loft kemur ekki frá Atlantshafi þá kólnar hér á landi

Þá segir hann líklegt að það muni kólna á höfuðborgarsvæðinu og suðurlandi þegar austan áttin, sem hefur verið að blása með ströndinni, gefur sig og þykir honum líklegt að það gæti orðið á föstudag.

„Þannig að við erum svona, hér á landi, norðan við allt sem er í gangi. Það eru lægðir að ganga yfir Evrópu og sunnarlega. Sem sagt rakinn af Atlantshafinu berst beint austur yfir suður Evrópu og verður þar að rigningu og snjókomu norðar í Evrópu, eins og í Ölpunum og Þýskalandi,“ segir Einar.

Auk þess segir hann búið að vera kalt í Skandinavíu undanfarið og að áfram sé spáð frekar eindreginni vestanveðráttu á þeim slóðum. Til útskýringar segir hann að það sama gildi í Skandinavíu og gildir hér á landi.

„Ef það kemur ekki milt og rakt loft af Atlantshafi, þá sér breiddargráðan bara til þess að það kólni, þegar loft hættir að koma með suðvestan átt inn á hafið, sem er svona alla jafna frekar eðlilegt.“

Hlýnar samhliða lægðunum og rignir

Undir miðja næstu viku spáir síðan breytingum í veðrinu, þegar veðrabrautin frá meginlandinu færist norðar, segir Einar sem áætlar að það verði á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku.

„Það kemur smá hlykkur á vestanvindabeltið, samkvæmt spánum eins og þær eru núna, fljótlega í næstu viku. Þessi hlykkur hann berst yfir Grænland og hingað til Íslands, um leið og hann fer hjá þá fáum við kannski eins og tvær lægðir hér yfir. Sú fyrri er líklega á miðvikudag og sú seinni á föstudag,“ segir Einar en setur þó þann varnaglann á að erfitt sé að greina það í þaula, enda um að ræða langtímaspá.

Hann segir þó hægt að áætla að breytingarnar verði í þessa veru, með lægðum úr suðvestri og telur sennilegt að samhliða hlýni í veðri með rigningu. Því má gera ráð fyrir rigningu í næstu viku og loks þurru veðri á ný um einhvern tíma.

Þurfum snjó til að geta farið að stunda vetraríþróttir 

Í pistli sínum á veðurvef Bliku ritar Einar að okkur muni klárlega um þá úrkomu sem spáð er. Aðspurður segir hann það einfaldlega vegna þess að venjulega snjói í nóvember og desember, með rigningu eða slyddu í byggð hér sunnanlands.

Af þeirri ástæðu að rigning hefur verið tiltölulega lítil að undanförnu, segir Einar þörf á rigningu til að til að færa ástandið í eðlilegt horf, eða nær meðaltalinu.

Hvers vegna er það?

„Við þurfum bara vatn í árnar, virkjanir og fleira. Síðan þurfum við snjó á hálendið og í skíðasvæðin til þess að það sé hægt að fara að stunda einhverjar vetraríþróttir, það er líka það.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert