Vilja skipta Kársnesskóla í tvennt

Gert er ráð fyrir að nýtt húsnæði við Skólagerði verði …
Gert er ráð fyrir að nýtt húsnæði við Skólagerði verði tekið í notkun á skólaárinu 2024-2025. mbl.is/Hákon

Lagt er til að skipta Kársnesskóla upp í tvo sjálfstæða skóla frá og með næsta skólaári, 2024-2025. Deildarstjóri á menntasviði Kópavogsbæjar segir uppskiptinguna skynsamlega, þar sem bregðast þurfi við íbúafjölgun á á Kársnesinu.

Á fundi menntaráðs í gærkvöld var tillagan lögð fram til umræðu og verður afgreidd á næsta fundi menntaráðs sem er 16. janúar. Frá þessu var greint í tölvupósti frá menntasviði Kópavogsbæjar til foreldra í dag.

„Við teljum þetta bara mjög skynsamlegt, vegna þess að skólinn er að stækka mjög mikið,“ segir Ragnheiður Hermannsdóttir, deildarstjóri grunnskóladeildar á menntasviði Kópavogsbæjar, í samtali við mbl.is. 

Nýr skóli við Skólagerði

„Fyrst er verið að gera þetta út af því að það er fyrirsjáanlega mjög mikil fjölgun. Það er mikil uppbygging á Kársnesinu,“ segir Ragnheiður.

Áætlað er að heildarfjöldi barna í leik- og grunnskóla á Kársnesinu verði hátt í 790. Ef fram fer sem horfir mun nemendafjöldi aukast enn frekar á næstu árum. Í ljósi fjölgunar nemenda, sem og aukins umfangs með samrekstri leik- og grunnskóla, er lagt til að starfsemi Kársnesskóla verði skipt upp í tvo skóla.

Gert er ráð fyrir að nýtt húsnæði við Skólagerði verði tekið í notkun á skólaárinu 2024-2025. Nýtt húsnæði mun hýsa, 1.-4. bekk grunnskóla, frístund og fjögurra deilda leikskóla. Í skólahúsnæðinu við Vallargerði verða nemendur í 5.-10. bekk.

Ef tillagan er samþykkt tekur hún aftur á móti ekki gildi fyrr en nýr skóli er tilbúinn, segir Ragnheiður.

„Óveruleg“ áhrif á nemendur og foreldra

Áhrif skiptingar á nemendur og foreldra eru talin óveruleg. Lögð verður áhersla á gott samstarf milli skólanna til að tryggja samfellu í námi og starfi, segir í tölvupósti til foreldra.

Að því gefnu að tillagan verði samþykkt verður hafist handa við að skapa samráðsvettvang til undirbúnings þessara breytinga með þátttöku foreldra og nemenda.

Ragnheiður segir að Kópavogsbær muni gera frekari grein fyrir hugsanlegri uppskiptingu skólans þegar tillagan er samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert