Svarar Astrid Lindgren fullum hálsi

Huginn Grétarsson fer fyrir útgáfufélaginu Þórshamri.
Huginn Grétarsson fer fyrir útgáfufélaginu Þórshamri.

Huginn Grétarsson, sem fer fyrir bókaforlaginu Þórshamri, hafnar því alfarið að höfundarréttarlög hafi verið brotin með útgáfu bókarinnar Amma Langsokkur.

Mörg dæmi séu þess efnis að þekktar persónur séu nýttar í listrænum tilgangi t.a.m. til að velta því upp hvernig þeim gangi síðar í lífinu.

Er Huginn þar að svara athugasemdum Astrid Lindgren Company sem fer með hugverkarétt sagna barnabókahöfundarins sænska.

Bað fyrirtækið Forlagið um að taka Ömmu Langsokk úr sölu þar sem bókin væri ekki á vegum fyrirtækisins. Lína Langsokkur er ein dáðasta persónan úr bókum Lindgren. Lögfræðingur fyrirtækisins sagði að í sínum huga væri um að ræða brot á höfundarétti. 

Fyrirtæki Astridar Lindgren telur höfundarrétt brotinn með útgáfu Ömmu Langsokks.
Fyrirtæki Astridar Lindgren telur höfundarrétt brotinn með útgáfu Ömmu Langsokks.

„Þá þótti þetta listrænt“ 

Huginn nefnir nokkur dæmi máli sínu til stuðnings. Meðal annars vísar hann til norsku bókarinnar Hässelby eftir Johan Harstad. Fjallar hún um Einar Áskel sem 42 ára mann sem býr enn hjá föður sínum og glímir við þunglyndi. Harstad kom á bókmenntahátíð Reykjavíkur árið 2009.

„Þá þótti þetta listrænt og fólk klappaði fyrir honum,“ segir Huginn. 

„Ég er bara að velta því fyrir mér hvernig þessi karakter, Lína Langsokkur, væri sem amma. Alveg eins og höfundurinn gerði með Einar Áskel,“ segir Huginn.

Hann nefnir fleiri dæmi, m.a. úr íslenskum bókmenntaheimi. „Rán Flygering og Hallgrímur Helgason gáfu út bókina Koma jól sem er vísun í bókina Jólin koma eftir Jóhannes úr Kötlum. Þar er verið að kveðast á við rímur Jóhannesar úr Kötlum. Fólk gerir engar athugasemdir við það og ég geri það ekki heldur,“ segir Huginn.

Hallgrímur Helgason og Rán Flygering gáfu út bókina Koma Jól. …
Hallgrímur Helgason og Rán Flygering gáfu út bókina Koma Jól. Í henni var kveðist á við Jóhannes úr Kötlum.

Fáránlegt að tala um stuld

Hann telur fáránlegt að tala um stuld í þessu samhengi. Fjölmörg dæmi eru um það í listasögunni að verk annarra séu notuð sem innblástur. Hann segir Ömmu Langsokk vera vangaveltu um það hvernig Lína Langsokkur myndi haga sér sem amma.

„Þetta er bara öskur einhverra aðila sem ráða ekki við að aðrir séu að leika sér með listræna tjáningu,“ segir Huginn. 

Amma Langsokkur er ekki eina útgefna bókin frá Þórshamri sem innblásin er af öðrum sígildum verkum. Þannig gaf Þórshamar einnig nýlega út bókina Palli er ekki einn í heiminum þar sem sagan gengur út á að Palli er með öðrum í stað þess að vera einn.

„Þetta er ádeila á það hvernig veröldin er í raun. Þetta eru bæði sjálfstæð verk,“ segir Huginn.

Allt annað að sýna ömmu en litla stelpu 

En útlitið er afar svipað, er það ekki? 

„Já, já en það er líka þannig með bókina sem vísar til bókar Jóhannesar úr Kötlum. Eins get ég bent á listaverk eftir Ole Ahlberg sem er til sölu í Gallarí Fold þar sem Tinni er að þukla á brjóstunum á einhverri konu. Það fer ekkert á milli mála að þar er Tinni og þetta er bara sagt listrænn gjörningur. Þú mátt vera með vangaveltur eða ádeilu um frægar persónur,“ segir Huginn.

Þetta verk eftir Ole Ahlberg var til sölu í Gallerí …
Þetta verk eftir Ole Ahlberg var til sölu í Gallerí Fold.

Hann er sjálfur höfundur bókanna um Ömmu Langsokk og Palla sem er ekki einn í heiminum. Eins sér hann um að hanna bækurnar en fékk vin sinn til að fullklára myndirnar. 

„Ég leik mér að því að hafa svipinn svipaðan og með Línu en það er allt annað að vera með mynd af einhverri ömmu en mynd af lítilli stelpu,“ segir Huginn.  

Dómsmál hafa fallið um svipuð mál. Þannig vakti athygli árið 2002 þegar nokkrir dagskrárgerðarmenn sænska ríkisútvarpsins útvörpuðu þáttum þar sem Einar Áskell var orðinn að melludólgi og eiturlyfjasala. Gunnilla Bergström, höfundur Einars Áskels, kærði dagskrárgerðarmennina fyrir brot á höfundarrétti en tapaði málinu á öllum dómstigum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert