„Það geta ekki færri unnið meira og meira“

Nokkur dæmi eru um lækna sem hafa hætt í heilsugæslunni …
Nokkur dæmi eru um lækna sem hafa hætt í heilsugæslunni eða minnkað starfshlutfall vegna álags. Ljósmynd/Colourbox

Oddur Steinarsson, heimilislæknir og varaformaður Læknafélags Íslands, segir að hann sé með nokkur dæmi um lækna sem hafi hætt í heilsugæslunni eða minnkað starfshlutfall vegna álags, og þá sé ekki minnst á veikindi.

„Þessi þróun er ekki boðleg áfram og það þarf að bregðast við og það með aðgerðum, ekki enn einni nefndinni.“ Það geti ekki færri unnið meira og meira, ár eftir ár. 

Þetta kemur fram í grein sem Oddur skrifar í nýjasta tölublað Læknablaðsins. Þar fjallar hann um fækkun heilsugæslustöðva og spyr um leið hvar heimilislæknarnir séu. 

Of margir skráðir á hverja stöð

Í upphafi greinarinnar bendir Oddur á, að árið 2016 hafi verið boðnar út þrjár nýjar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

„Aðeins tveir aðilar sóttu um og opnuðu tvær nýjar heilsugæslur árið 2017. Í október það ár voru 213.000 manns skráðir á 19 heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu. Sex árum síðar, í október 2023, eru 255.000 skráðir á höfuðborgarsvæðinu, sem gerir um 13.400 að meðaltali á hverja stöð. Æskileg stærð stöðva er um 8-12.000 skjólstæðingar og er varað við að fara yfir 15.000 skráða. Minni heilsugæslur reknar af og í eigu lykilstarfsmanna hafa komið best út í nágrannalöndunum.“

Þá segir hann að fyrir um einu og hálfu ári hafi verið tilkynnt um myglu í húsnæði Heilsugæslunnar í Grafarvogi. Þá hafi starfsemin verið flutt að mestu yfir í Heilsugæsluna í Árbæ. Á sama tíma hafi læknamönnun í Grafarvogi verið orðin mjög léleg.

Oddur Steinarsson.
Oddur Steinarsson. mbl.is/Sigurður Bogi

„Síðan hefur ekki verið rekin heilsugæslustöð í Grafarvogi og ekki er alveg ljóst hvenær breyting verður á því. Nýlega hefur starfsmönnum heilsugæslustöðvanna í Breiðholti verið tilkynnt um sameiningu á starfsemi þeirra. Þá er jafnframt rætt um hvort sameina eigi fleiri heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu vegna manneklu. Þannig gætu verið 15 til 16 starfandi heilsugæslur fyrir 255.000 manns innan árs. Þá verður meðalskráning á stöð -16.-17.000 manns,“ skrifar Oddur. 

Fjármögnun til lækninga og hjúkrunarþjónustu ekki aukin

Á sama tíma og þetta raungerist tali stjórnvöld talað um styrkingu heilsugæslunnar. Oddur tekur þó fram að fjármögnunum til lækninga og hjúkrunarþjónustu hafi þó ekki verið aukin.

„Fjármögnunin hefur ekki fylgt fólksfjölgun og auknum verkefnum. Fyrir ári síðan voru þrjár sjálfstæðar stöðvar í töluverðum rekstrarvanda, var þá loksins brugðist við og bætt inn nokkru fé. Þetta voru jafnframt þær þrjár stöðvar sem komu best út úr síðustu gæða- og þjónustukönnun. Meinið hér á landi er að fjármögnun fylgir yfirleitt ekki launaþróun eða fjölgun verkefna og skjólstæðinga. Það er talað um upphæðir inn í kerfi, en því miður eru þetta oftast plástrar. Það geta ekki færri unnið meira og meira, ár eftir ár. Þá sporar úr.“

Oddur segir að Félag íslenskra heimilislækna hafi í vor kannað fjölda setinna stöðugilda heimilislækna. Samkvæmt því hafi um 100 stöðugildi verið setin á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta gerir um einn sérfræðing á tæplega 2600 skráða í dag. Þar sem mönnunin er verst, var einn heimilislæknir á um 5000 skráða. Viðmið félagsins er 1200 skráðir skjólstæðingar á lækni í fullu starfi í þéttbýli.“

Sætta sig ekki við óbreytt ástand

Í greininni bendir Oddur á, að heilbrigðisráðuneytið hafi synjað óskum um að stöðva nýskráningar skjólstæðinga utan upptökusvæðis stöðva, þrátt fyrir að stöð sé fullsetin. Embætti landlæknis hafi fengið afrit af þeim samskiptum en aðhafðist ekki.

„Ég er með nokkur dæmi um lækna sem hafa hætt í heilsugæslunni eða minnkað starfshlutfall vegna álags, og þá er ekki minnst á veikindi. Þessi þróun er ekki boðleg áfram og það þarf að bregðast við og það með aðgerðum, ekki enn einni nefndinni,“ segir Oddur og bætir við síðar í greininni að ljóst sé að heimilislæknar hér á landi muni ekki sætta sig við óbreytt ástand.

Uppfært kl. 9.27:

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins gerir athugasemdir

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur gert athugasemdir við Læknablaðið vegna fullyrðinga í grein Odds sem fjallað er um hér að ofan.

Fyrri fullyrðingin snýst um að búið sé að tilkynna starfsfólki tveggja heilsugæslustöðva heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Breiðholti að stöðvarnar verði sameinaðar.

„Það er ekki rétt. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um sameiningu en verið að skoða ýmsa möguleika. Það er gert í góðu samráði við starfsfólk og er það ferli í gangi. Það er alls óljóst hvað mun koma út úr því samráði og alls ekki tímabært að taka ákvörðun um framhaldið fyrr en því ferli er lokið,” segir í athugasemd sem heilsugæslan sendi mbl.is.

Í seinni fullyrðingunni er talað um að rætt sé um að sameina stöðvar vegna manneklu.

„Það er ekki rétt. Verið er að skoða ýmsa möguleika til að auka möguleika heilsugæslustöðva, sér í lagi minni stöðva, til að bjóða upp á meiri fjölbreytni í þjónustu. Að baki liggja fagleg sjónarmið með það að markmiði að veita skjólstæðingum sem besta þjónustu. HH vill reka öflugar heilsugæslustöðvar sem geta veitt góða þjónustu og þetta er hluti af þeirri viðleitni,” segir í athugsemdinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert