Slegið á fingur dómara vegna rangfærslu

Endurtaka þarf málið fyrir héraðsdómi, en dómari fór einn dag …
Endurtaka þarf málið fyrir héraðsdómi, en dómari fór einn dag yfir hámark þess sem heimilt er til að kveða upp dóminn. mbl.is/Þorsteinn

Landsréttur hefur ómerkt dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 11. nóvember í fyrra. Er ástæða þess að dómari málsins kvað ekki upp dóm innan þeirra fjögurra vikna sem hann hefur til þess frá því að málið var tekið til dóms.

Var dómsuppkvaðning í málinu fjórum vikum og einum degi eftir að málið var tekið til dóms án þess að bókað hefði verið sérstaklega að dómari og sakflytjendur teldu ekki þörf á endurflutningi málsins.

Dómari skrifaði ranga dagsetningu í dóminn

Í úrskurði Landsréttar er tekið fram að héraðsdómari hafi skrifað ranga dagsetningu aðalmeðferðar í dóminn og sagt hana hafa verið 14. október, en ekki 13. október, líkt og rétt er samkvæmt úrskurði Landsréttar. Munaði þessum degi að tímaramminn hefði uppfyllt formleg skilyrði.

Segir í úrskurðinum að vegna þessa verði ekki hjá því komist að ómerkja dóm héraðsdóms og vísa málinu aftur í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju, en héraðsdómarinn Sigríður Hjaltested kvað upp fyrri dóminn.

Var dæmdur fyrir að ráðast á fyrrverandi sambýliskonu sína

Í málinu hafði maður verið dæmdur í hálfs árs fangelsi fyrir að ráðast á þáverandi sambýliskonu sína. Sparkað í læri hennar, hrint henni, sparkað í klof hennar og stigið ofan á höfuð hennar og rifið í hár. Í annað skipti játaði hann að hafa ekið bifreið sinni fyrir framan bifreið konunnar og hemlað skyndilega, farið úr bifreiðinni og rifið upp hurð á bifreið konunnar og reynt að rífa hana út. Eftir að konan náði að forða sér hafi hann svo bakkað tvisvar á bifreið konunnar.

Til viðbótar játaði hann ýmiss eignarspjöll á eigum konunnar.

Maðurinn var hins vegar sýknaður af fleiri ákæruliðum um alvarlegri brot og nauðgun gegn konunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert