Ég sit öruggari í sjálfum mér

Emmsjé Gauti er vinsæll hjá fólki á öllum aldri.
Emmsjé Gauti er vinsæll hjá fólki á öllum aldri. mbl.is/Ásdís

Það er meira en nóg að gera hjá Gauta þessa dagana; hann er með sýninguna Jülevenner Emmsjé Gauta í Háskólabíói, og er uppselt á allar fjórar sýningar. Þar mun hann koma fram ásamt fjölmörgum listamönnum og skemmta áhorfendum með tónlist og óvæntum uppákomum. Gauti er með puttana í ýmsu fleiru, en hann og vinur hans voru að gefa út fjölskylduspilið Læti sem hann segir að sé ávísun á hlátur og gleði.

Fór baksviðs að gráta

Árið 1999, þegar Gauti er tíu ára, heyrði hann fyrst lag með Eminem, hinum heimsfræga bandaríska rappara.

„Ég var niðri í kjallara með frænda mínum og heyrði lagið My name is og skrifaði í kjölfarið minn fyrsta rapptexta á ensku. Rapp var á þessum tíma jaðarsena og fólk talaði ekki um rapp sem tónlist. Það var oft talað niður til fullorðins fólks sem hlustaði á rapp. Fólk var spurt hvenær það ætlaði að hætta þessu kjaftæði. En í dag er rapp og hipphopp að einhverju leyti undirstaðan í því sem er vinsælt í dag; grunnurinn er rapp og hipphopp.“

Gauti fór ungur að taka þátt í keppninni Rímnaflæði með textana sína. Spurður hvernig það hafi gengið, svarar hann:

„Ég skíttapaði. Ég tók þátt í þessu þrjú ár í röð og tapaði alltaf. Eitt árið var ég valinn efnilegasti rapparinn, en ég held að það hafi verið vegna þess að ég gleymdi textanum á sviðinu og fór baksviðs að gráta. Ég var þá þrettán eða fjórtán,“ segir Gauti og ákvað að gefast ekki upp þótt þarna hefði hann fengið smá mótvind.

„Ég hélt bara áfram því ég hef alltaf elskað rapp og að rappa.“

Þorði ekki í meðferð

Hvernig breyttist líf þitt þegar þú hættir að drekka? Hvernig hefur þér liðið?

„Mér hefur liðið alls konar, en lífið breyttist mjög mikið. Ég sit miklu öruggari í sjálfum mér. Líkamlegir kvillar, eins og kvef og magaverkir, hurfu. Andlega hliðin fór blússandi hátt upp, en það tók líka við sjálfskoðun og það er ekkert auðvelt. Þannig að þetta hefur verið alls konar en ég sé ekki eftir þeirri ákvörðun að hætta að drekka og mig langar ekki í áfengi,“ segir hann.

„Ég er enn að minna mig á næstum daglega af hverju ég hætti og reyni að vera betri útgáfa af mér í dag en í gær,“ segir Gauti og segir að ekkert dramatískt hafi gerst þegar hann tók þessa afdrifaríku ákvörðun.

„Í alvöru talað; ég var bara að drekka eitt rauðvínsglas og hugsaði hvort þetta ætti að vera framhaldið. Ég var búinn að gera ítrekaðar tilraunir til að hætta sjálfur sem voru vanalega bara samtöl sem ég átti við sjálfan mig. Og það er ekkert verra en að svíkja sjálfan sig því maður er bara einn í þeirri deilu,“ segir Gauti og segist hafa leitað sér hjálpar, en ekki þó farið í meðferð. Horft til baka, segir Gauti að meðferð hefði verið áskjósanlegur kostur.

„En ég þorði því ekki. Ég vildi ekki að fólk myndi frétta að ég væri hættur að drekka. Mér fannst það skömmustulegt; sem er ótrúlega fyndið. En ég trúði kannski ekki að ég gæti hætt að drekka og vildi því ekki vera að básúna það út um allt,“ segir hann.

„Ég þurfti að sanna mig; það er ekkert mál að segjast ætla að gera eitthvað, en maður verður að láta verkin tala,“ segir Gauti.

„Núna á ég þrjú börn og hund sem er mjög krefjandi,“ segir hann og siðar Pjakk til.

Jovana, Gauti og börnin þrjú í sumarleyfi á suðrænni strönd.
Jovana, Gauti og börnin þrjú í sumarleyfi á suðrænni strönd.

„Ég tími ekki þessum aukatíma í neitt annað en fjölskylduna og hluti sem mér finnst gaman að gera.“

Stoltur af spilinu Læti

„Vin minn hafði fyrir nokkrum árum dreymt draum þar sem hann var í spili sem líktist „Actionary“ en ekki mátti leika, heldur aðeins gera hljóð. Hann vaknar og skrifar hugmyndina á blað og segir mér frá þessu. Síðan líða tvö ár og við fórum svo að ræða þetta og ákváðum að keyra þetta á fullt,“ segir hann.

„Nú erum við að gefa út spilið Læti sem ég er mega stoltur af. Þetta er fyrir sex ára og eldri. Þetta er ávísun á að hlæja og hafa gaman.“

Við sláum botninn í skemmtilegt samtal, enda þarf Gauti að hlaupa út á Hamborgarafabrikkuna í hádeginu að skemmta þar gestum og gangandi. Þessi athafnasami fjölskyldufaðir og rappari tekur Pjakk litla í fangið og hverfur út í daginn.

Ítarlegt viðtal er við Emmsjé Gauta í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert