Enginn úrskurður í fimm mánuði

ÚNU er starfrækt á grundvelli upplýsingalaga til að leysa úr …
ÚNU er starfrækt á grundvelli upplýsingalaga til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verulegan tíma tekur fyrir almenning og fjölmiðla að fá niðurstöðu í málum sem skotið er til úrskurðarnefndar um upplýsingamál (ÚNU). Síðastliðna 24 mánuði kvað nefndin mest upp 12 úrskurði í einum mánuði en algengt var að fá þrjá til fjóra úrskurði. Í fimm mánuði kom hins vegar enginn úrskurður frá ÚNU. Kemur þetta fram í skriflegum svörum forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Kort/mbl.is

ÚNU er starfrækt á grundvelli upplýsingalaga til að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum. Nefndin er sjálfstæð og óháð stjórnsýslunefnd sem nær til allrar stjórnsýslu hins opinbera. Forsætisráðherra skipar þrjá menn í ÚNU og jafnmarga til vara. Einnig veitir forsætisráðuneytið nefndinni ritara og skrifstofuþjónustu. Í svari forsætisráðuneytisins er bent á að málum hjá ÚNU getur einnig lyktað með því að þau eru felld niður.

„[Er það] m.a. þegar kærandi fær aðgang að umbeðnum gögnum við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni og þegar beiðni kæranda er afgreidd í kjölfar kæru vegna tafa á afgreiðslu beiðninnar. Árið 2022 voru 147 mál felld niður hjá nefndinni og það sem af er árinu 2023 hafa 109 mál verið felld niður,“ segir í svari. Segir ráðuneytið einnig ljóst að fjöldi úrskurða ÚNU hafi dregist „nokkuð saman á yfirstandandi ári og síðasta ári miðað við árin þar á undan“. Í ljósi þessarar hægu afgreiðslu mála mun forsætisráðuneytið „styðja nefndina í að koma málshraða í betra horf.“

Morgunblaðið hefur minnst tvö mál sem nú bíða afgreiðslu úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Var annað þeirra móttekið af nefndinni í janúar síðastliðnum en hitt í júní. Er því að verða ár síðan fyrra málið rataði inn á borð nefndarinnar. Óvíst er hvenær niðurstöður fást.

Rætt er við Skúla Magnússon, umboðsmann Alþingis, í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert