Stórir skjálftar á Atlantshafshrygg

Jarðskjálftarnir urðu á Norður-Atlantshafi, suður af Íslandi.
Jarðskjálftarnir urðu á Norður-Atlantshafi, suður af Íslandi. mbl.is/RAX

Sjö stórir jarðskjálftar hafa mælst undir Norður-Atlantshafi, suður af Íslandi, í dag. Þeir stærstu hafa mælst 5,3 að stærð samkvæmt banda­rísku jarðvís­inda­stofn­un­inni, USGS. Allir hafa þeirr átt upptök á um tíu kílómetra dýpi. 

Fyrsti skjálftinn mældist klukkan 8.04 í morgun og var 5 að stærð. 20 mínútum síðar mældist skjálfti 4,9 að stærð og hálftíma eftir það mældist annar 4,9 að stærð. 

Tveir mældust 5,3 að stærð, annar klukkan 9.39 og hinn klukkan 10.56. 

Klukkan 11.39 mældist skjálfti 4,7 að stærð og klukkan 12.58 mældist sá sjöundi í dag á þessu svæði, 5,3 að stærð.

Skjálftarnir mælast á N-Atlantshafshryggnum suður af Íslandi.
Skjálftarnir mælast á N-Atlantshafshryggnum suður af Íslandi. Kort/USGS

Um 200 skjálftar á Reykjanesskaga

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að skjálftarnir hafi ekki sést á mælum Veðurstofunnar.

Um 200 skjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti, sem er örlítil aukning frá síðustu dögum. Skjálftavirkni hefur samt sem áður lítið breyst að undanförnu.

„Þeir eru örlítið fleiri en hefur verið seinustu daga,“ segir Lovísa en bendir aftur á móti á að aukningin sé svo lítil að tíðni skjálfta sé í raun mjög svipuð því sem hefur verið síðustu daga.

Veðurstofan gaf út nýtt hættumatskort í gær. Víðir Reyn­is­son, sviðsstjóri al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, sagði við mbl.is að kortið staðfesti að inn­streymi kviku væri hætt í kviku­gang­in­um sem myndaðist 10. nóv­em­ber.

„En á sama tíma held­ur áfram kviku­streymi und­ir Svartsengi og landris þar. Það sem við erum að horfa á núna eru ákveðin kafla­skil,“ sagði Víðir í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert