Fór ekki á taugum

​Níkíta Krúsjoff og John F. Kennedy voru í burðarhlutverkum í …
​Níkíta Krúsjoff og John F. Kennedy voru í burðarhlutverkum í Kúbudeilunni. AFP

„Við erum í eilífri þakkarskuld við Kennedy forseta fyrir það að hann skuli ekki hafa farið á taugum. Það voru mjög sterk öfl í hópi ráðgjafa hans sem vildu gera innrás á Kúbu og afgreiða þetta mál. Verið var að safna saman herliði í því skyni og það þurfti bara samþykki forsetans. Hefði það verið gert eru miklar líkur til þess að allt hefði farið í bál og brand.“

Þetta segir Magnús Þór Hafsteinsson sem þýtt hefur bók enska blaðamannsins og hernaðarsagnfræðingsins Max Hastings um Kúbudeiluna árið 1962. 

„Það sem Bandaríkjamenn vissu ekki var að Sovétmenn voru ekki bara með eldflaugar á Kúbu, heldur líka svokölluð taktísk kjarnorkuvopn. Til að beita þeim þurfti bara leyfi frá herforingjum á staðnum. Hefðu þeir orðið mjög aðþrengdir, manntjón orðið mikið og Rússarnir séð fram á að vera að tapa því stríði, sem þeir hefðu eflaust gert vegna yfirþyrmandi afls Bandaríkjanna, er mjög sennilegt að einhverjir hershöfðingjar hefðu freistast til að nota þau vopn. Þá hefði fjandinn verið laus,“ segir Magnús. 

​Magnús Þór Hafsteinsson með bækurnar þrjár sem hann hefur þýtt …
​Magnús Þór Hafsteinsson með bækurnar þrjár sem hann hefur þýtt og eru í jólabókaflóðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon


Brýnt erindi við samtímann

Magnús segir bókina eiga brýnt erindi inn í nútímann enda geisa nú stríð bæði í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. „Bókin sýnir okkur hversu mikilvægt það er að vera með fólk með góða dómgreind og sterkar taugar við stjórnvölinn og að hægt sé að leysa deilur með samningum án þess að allt fari úr böndunum. Ekki svo að skilja að Sovétmenn hafi viljað stríð. Krúsjoff vildi koma Bandaríkjamönnum í bobba með því að setja með leynd upp kjarnorkuflaugar á þröskuldi þeirra. Sovétmenn voru mjög pirraðir yfir því að Bandaríkin og NATO gerðu slíkt á Ítalíu og í Tyrklandi, skammt frá Sovétríkjunum. Síðan hugðist Krúsjoff tilkynna þetta óvænt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í nóvember 1962. Þegar Krúsjoff sá að Bandaríkjamenn væru búnir að uppgötva flaugarnar strax þarna í október sá hann að skákin var töpuð því hernaðarafl Bandaríkjanna var svo yfirþyrmandi. Hann og miðstjórn Kommúnistaflokksins í Moskvu fóru strax að leita leiða til að bakka út úr þessu án þess þó að missa andlitið. Gleymum því ekki að þetta voru allt menn sem höfðu lifað seinni heimsstyrjöldina og Kennedy forseti tekið þátt í henni. Krúsjoff hafði líka lifað rússnesku byltinguna og valdatíma Stalíns. Hann vissi hvað svona átök myndu þýða í mannfalli og þjáningu.“

Magnús bendir á, að í dag hafi mun færri stjórnmálamenn og þjóðarleiðtogar reynt styrjaldir á eigin skinni og því geti falist ákveðin hætta; menn geri sér ekki grein fyrir því hversu hryllilegar styrjaldir séu. „Kannski yrði útkoman fyrir vikið allt önnur ef sambærileg staða og í Kúbudeilunni kæmi upp. Maður hefur áhyggjur af því.“

Nánar er rætt við Magnús í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann er með tvær aðrar bækur í jólabókaflóðinu, þýðingar á sjálfsævisögu tónlistarmannsins Bruce Springsteens og Harmsögum af heimskautasvæðum eftir Norðmanninn Odd Harald Hauge.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert