Fylgt út úr Sorpu vegna „hegðunar sem var ekki í lagi“

Öryggisverðir starfa nú í Sorpu við Ánanaust eftir nokkur tilvik …
Öryggisverðir starfa nú í Sorpu við Ánanaust eftir nokkur tilvik þar sem starfsfólki var ógnað. Ljósmynd/Ásdís Ásgeirsdóttir

Tveir öryggisverðir hófu störf í endurvinnslustöðinni við Ánanaust á Granda í gær, eftir þó nokkur tilfelli þar sem óprúttnir aðilar ógnuðu eða veittust að starfsfólki. Einum aðila var fylgt út í dag.

Þetta staðfestir Gunnar Dofri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Sorpu í samtali við mbl.is. 

„Ég var þarna fyrir örfáum mínútum og skilst á öryggisvörðunum og mínum mönnum að einum manni hafi verið fylgt út af stöðinni vegna hegðunar sem var ekki í lagi.“ 

Viðbrögð lögreglu ekki dugað til

Hann segir Sorpu hafa gripið til þess örþrifaráðs að ráða til sín öryggisverði um helgar eftir nokkur atvik þar sem starfsfólki var ógnað eða jafnvel veist að því.

Aðspurður segir hann aðstoðar lögreglu hafa verið óskað en að viðbrögð lögreglu hafi ekki borið nægilegan árangur.

„Þetta var orðið þannig það var verið að ógna öryggi starfsfólks og viðskiptavinum leið ekki vel við þessar aðstæður. Þá getum við ekki annað en gripið til einhverra aðgerða,“ segir Gunnar.

Segir hann fyrirkomulagið verða með þeim hætti, að minnsta kosti um helgar, þar til ástandið batni.

Gunnar Dofri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Sorpu.
Gunnar Dofri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Sorpu.

Stela flöskum og stundum raftækjum

Spurður hvaða einstaklinga um ræði segir Gunnar að yfirleitt sé það fólk sem komi með mikið magn af flöskum og dósum í einu og virðist stela fleirum til að skila í endurvinnsluna. 

Yfirleitt séu einstaklingarnir sem um ræða að stela fleiri flöskum og dósum, en einnig séu tilfelli um að fólk reyni að stela raftækjum. 

Greint var frá í Heimildinni í morgun að framkvæmdastjóri Grænna skáta hefði grun fyrir því að skipulagðir glæpahópar erlendis hafi um tveggja ára skeið herjað á söfnunargáma Skáta og stolið úr þeim flöskum og dósum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert