Sér ekki eftir framkomu sinni við starfsfólk

Þótt dómar hafi fallið Eflingu í óvil vegna uppsagna starfsfólks á skrifstofu félagsins veldur það formanni þess engu hugarangri. Sólveig Anna Jónsdóttir, segist ekki fallast á niðurstöðurnar sem séu rangar.

Sólveig Anna mætti til leiks í Spursmál, sem er nýr umræðuþáttur á vettvangi mbl.is sem sendur er út alla föstudaga kl. 14 og er í kjölfarið aðgengilegur á vefnum og öllum helstu streymisveitum, m.a. Spotify og Youtube.

Í þættinum svaraði Sólveig Anna spurningum þáttarstjórnanda. Spannst úr því hressilegt samtal þar sem fyrrnefnd mál bar meðal annars á góma.

Hlýða má á orðaskiptin hér að ofan en einnig lesa þau orð fyrir orð hér að neðan.

Sólveig Anna sat fyrir svörum í Spursmálum og þar skarst …
Sólveig Anna sat fyrir svörum í Spursmálum og þar skarst í brýnu milli formanns Eflingar og þáttarstjórnanda. mbl.is/Brynjólfur Löve Mogensson

Þið rákuð starfsfólk, mann og annan og á tímabili sögðuð upp öllu starfsfólki. Þið hafið fengið á ykkur dóma í íslenska dómskerfinu, verið dæmd til að greiða bætur. Dómarar hafa lýst því yfir að þið berið ábyrgð á veikindum fólks sem komu upp í kjölfar samskipta við ykkur. Hvernig er það fyrir forystumann í verkalýðshreyfingu að vera með slíka dóma á bakinu?

„Það veldur mér engu hugarangri?“

Engu hugarangri, jafnvel þótt fólk hafi orðið fyrir veikindum vegna samskipta við þig?

„Ég get auðvitað sagt mína sögu af öllu því sem þarna átti sér stað. Hef nú reynt að gera það með málefnalegum og heiðarlegum hætti.“

Ósammála niðurstöðunni að öllu leyti

En þetta er niðurstaða dómstóla.

„Ja, niðurstaða dómstóla má vera svona en þetta er ekki mín sýn. Ég fellst ekki á þessa niðurstöðu, ég er ósammála henni að öllu leyti. Það voru átök inni á skrifstofu. Það voru pólitísk átök, þetta voru átök um stefnu, hvernig ætti að fara og hver ætti að stýra félaginu. Hvort það ætti að vera lýðræðislega kjörin forysta, sem ég tel að sé rétt. Forysta sem félagsfólk valdi og treysti og hefur sýnst ítrekað að svo er eða hvort starfsfólkið ætti að stýra. Við erum ósammála um þetta.“

Finnst þér rétt vinnubrögð að reka fólk og vísa því á dyr af vinnustað sem það hefur verið á í áratugi fyrir framan samstarfsfólk sitt?

Sér ekkert athugavert við aðferðafræðina

„Ja, bara eins og ég segi, þá voru þetta þau vinnubrögð sem ég vann eftir. Ég sé ekki eftir neinu og er ósammála að öllu leyti niðurstöðu dómstóla þarna. Ég er svo sannarlega ekki eina manneskjan í þessu samfélagi eða öðrum sem hef þurft að sitja í gegnum furðulegt dómshald og þurft í kjölfarið að horfast í augu við einhverja ósanngjarna niðurstöðu.“

En er það rétt sem ég hef fengið að ég held staðfest að eftir að þið komuð og tókuð við forystu í félaginu að þið hafið komið ykkur upp sérstakri skrifstofuaðstöðu annarsstaðar í húsinu hjá Eflingu.

„Guð minn góður. Það er brjálsemi að halda þessu fram og því miður er það svo....“

Voruð þið ekki með aðstöðu annarsstaðar í húsinu sem annað starfsfólk hafði ekki aðgang að?

 

 

„Nei að sjálfsögðu ekki. Guð minn góður. Hverskonar bull er þetta eiginlega og það er ótrúlegt að ég þurfi á þessum tímapunkti enn þá að vera að reyna að hrekja...“

Við viljum fá svör við þessum spurningum, sem eðlilegt er.

„Já ég er að reyna að svara þessu og þetta er alrangt. Efling, bara svo ég fari að útskýra þetta eins leiðinlegt og fáránlegt og það hlýtur nú að vera fyrir þá sem eru að horfa á þetta sem vilja væntanlega frekar fjalla um kjaramálin svo sannarlega...“

Þetta eru mál sem skipta sannarlega máli.

„Efling á næstum 50% í Guðrúnartúninu sem stundum hefur verið kölluð skrifstofuvirkið.“

Stór og glæsileg bygging.

„Við höfum verið á þriðju hæðinni og við höfum aðstöðu á fjórðu hæðinni. Þetta eru hæðir sem við nýtum, gerðum þá og gerum nú. Að einhver hafi verið að reyna að loka sig af er brjálsemi að halda fram, rangt, lygar og rógburður.“

Það eru orð um þetta fólk sem ég ætla ekki að leggja mat á.

„Það eru orð um að ég hafi reynt að loka mig af í einhverju aðskildu rými.“

Viðtalið við Sólveigu Önnu má sjá og heyra í heild sinni hér fyrir neðan:



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert