Tjónið gæti numið allt að 10 milljörðum

Starfsmenn á vegum Náttúruhamfaratryggingar Íslands hafa unnið alla helgina að …
Starfsmenn á vegum Náttúruhamfaratryggingar Íslands hafa unnið alla helgina að meta ástandið í Grindavík. Samsett mynd

Unnið hefur verið að því um helgina að meta tjón á fasteignum í Grindavík og tillögur um greiningarvinnu hafa verið sendar fjármálaráðuneytinu. Forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands hefur sagt tjónið geta numið allt að 10 milljörðum króna. 

„Við áætlum núna að tjónið sé á bilinu 6-8 milljarðar en við teljum afar líklegt að það verði undir 10 milljörðum, þrátt fyrir að það myndi koma eitthvað óvænt sem við eigum ekki von á núna.“

Þetta segir Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, í samtali við mbl.is er hún var spurð um umfang tjónsins í Grindavík.

Mikið verk að vinna

„Það sem við höfum verið að gera núna er að vinna úr þessum 140 tjónaskoðunum sem búið var að fara í,“ segir Hulda spurð hver verkefni helgarinnar hafa verið. Starfsmenn á vegum stofnunarinnar hafa unnið alla helgina við að meta ástandið í Grindavík.

„Það er mikið verk að vinna og ljúka þeirri skýrsluvinnu í kringum tjónaskoðanirnar,“ segir Hulda.

„Síðan höfum við verið að skipuleggja 90 tjónaskoðanir til viðbótar sem verður farið í frá mánudegi til miðvikudags.“ Þá sé búið að skipuleggja tjónaskoðun á öllum tilkynntum tjónum í Grindavík.

„Síðan höfum við verið að vinna að tillögum sem fóru til fjármálaráðuneytisins í dag sem byggja á því að farið verði í greiningarvinnu á því hvaða lóðir koma til með að verða íbúðahæfar í framtíðinni,“ segir Hulda. Þá verði hægt að vita hvort hægt verið að reikna með því að tjónabótum verði varið til endurbóta eða hvort bætur verið greiddar út.

Krefjandi að meta tjón á burðarvirki

Spurð hvort aðstæður í Grindavík hafi breyst mikið á síðustu dögum svarar Hulda því neitandi.

„Það eru um 40 eignir sem eru frá því að vera með ekkert tjón til minniháttar tjóns og restin, upp í 97 íbúðarhús, eru talsvert skemmdar upp í það að vera altjón.“ Hulda segir þær fasteignir eiga það allar sameiginlegt að vera með skemmdir á burðarvirki.

„Það er mjög breiður skali á stöðu þeirra húsa sem hafa verið skoðuð.“

Hún segir fasteignirnar sem séu með tjón á burðarvirki krefjast mikillar verkfræðilegrar greiningar þegar viðgerðaraðferðir eru metnar. „Það er ekki einfalt að kasta út viðgerðartölum fyrir hús þar sem tjón hefur orðið á burðarvirki því það þarf í raun að burðarþolshanna hús upp á nýtt,“ segir Hulda.

„Það er mikið verkefni hjá matsmönnum við hverja og eina matsgerð þar sem tjón hefur orðið á burðarvirki.“

Loks segir Hulda það hafa gengið vel að vinna með Grindvíkingum.

„Eigendur eru rosalega sveigjanlegir og tilbúnir að aðlaga sig þeim tímum sem við erum að óska eftir að tjónamat fari fram, sem hefur hjálpað okkur mjög mikið að halda vel á spöðunum í tjónamatinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert