Tólf mánuðir fyrir að kýla ítrekað konu með kornabarn

Landsréttur staðfesti áfrýjaðan dóm yfir ofbeldismanni en lækkaði fjárhæð skaðabóta.
Landsréttur staðfesti áfrýjaðan dóm yfir ofbeldismanni en lækkaði fjárhæð skaðabóta. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsréttur hefur staðfest dóm yfir karlmanni, sem héraðsdómur dæmdi til að sæta 12 mánaða fangelsi. Féllst dómstóllinn þó á að minnka fjárhæð skaðabóta.

Maðurinn er dæmdur fyrir að kýla barnsmóður sína ítrekað í andlitið á meðan hún hélt tæplega eins mánaðar gamalli dóttur þeirra.

Fékk hann 12 mánaða óskil­orðsbundið fang­elsi, eins og áður seg­ir, og var hon­um gert að greiða 2,5 millj­ón­ir í miska­bæt­ur, 1,5 millj­ón­ir til barn­s­móður sinn­ar og eina millj­ón til barns­ins.

Þá var hon­um gert að greiða all­an sak­ar­kostnað, sem nam 3,4 millj­ón­um króna. 

Móðirin sérstaklega varnarlaus

Í úrskurði landsréttar hefur fjárhæð skaðabóta til barnsmóður mannsins og dótturinnar hins vegar verið lækkaður niður í 1,5 milljónir. Er honum gert að greiða konunni eina milljón og barninu 500.000 krónur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 1.747.129 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Landsrétti. 

Kemur fram í niðurstöðu dómsins að konan hafi verið „sérstaklega varnarlaus þar sem hún var með kornungt barn þeirra í fanginu en við atlöguna skapaðist jafnframt alvarleg hætta fyrir barnið er brotaþolinn A féll í gólfið undan atlögu ákærða. Var árás ákærða sérstaklega alvarleg í þessu ljósi.“

„Verður talið að með atlögunni hafi ákærði á alvarlegan hátt og með ofbeldi ógnað heilsu og velferð hennar sem og barns þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert