14 ára drengur fékk fyrir hjartað og hneig niður

Drengurinn keypti drykkinn í Krambúðinni á Selfossi.
Drengurinn keypti drykkinn í Krambúðinni á Selfossi. Ljósmynd/Krambúðin

14 ára drengur fékk verk fyrir hjartað, hneig niður og hringdi á sjúkrabíl eftir að hafa drukkið orkudrykk sem hann keypti sjálfur á sjálfsafgreiðslukassa í Krambúðinni á Selfossi, að sögn móður drengsins.

Margrét Kristín Ingibjargardóttir, móðir drengsins, segir ekki víst hversu mikið hann hafi drukkið en hann segist sjálfur hafa drukkið gosdrykkinn Mountain Dew, sem er almennt ekki talinn vera orkudrykkur þó hann innihaldi vissulega koffín.

„Hann segir að þetta hafi verið Mountain Dew en mig grunar samt að það hafi verið eitthvað annað,“ segir Margrét, sem er gjarnan kölluð Magga Stína, í samtali við mbl.is.

Hún segir að sonur hennar hafi keypt drykkinn á sjálfsafgreiðslukassa í Krambúðinni á Selfossi og verið gangandi á leiðinni heim til sín þegar hann fékk verk fyrir hjartað. Þá hneig hann niður og hringdi sjálfur á sjúkrabíl sem flutti hann á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Foreldrarnir fengu símtal þess efnis frá heilbrigðisstarfsfólki og segir Magga Stína það hafa verið „svolítið sjokk“.

Margrét Kristín Ingibjargardóttir, móðir drengsins sem hneig niður.
Margrét Kristín Ingibjargardóttir, móðir drengsins sem hneig niður. Ljósmynd/Aðsend

Nánast ekkert eftirlit

Magga Stína vakti athygli á atvikinu á Facebook-hóp fyrir íbúa á Selfossi í gær. Hún gerði það til þess að vekja athygli á aðgengi barna að ýmsum vörum í verslunum sem geta verið þeim skaðlegar, að eigin sögn.

Kallar þú eftir strangara eftirliti á sjálfsafgreiðslukössum eða eitthvað annað fyrirkomulag til þess að sporna við atvikum sem þessum?

„Já, algjörlega. Ég er búin að fá ábendingar um það að víða erlendis koma svona rauð flögg á sjálfsafgreiðslukössum, þá þarf starfsmaður að koma og gefa leyfi. Það myndi vera eitthvað, það er nánast ekkert eftirlit á þessum kössum,“ segir Magga Stína.

„Það hefur komið fyrir að börn hafa dáið út af ofneyslu á koffíni. Erum við að fara að bíða enn eitt skiptið eftir því að eitthvað alvarlegt gerist til þess að fá vakningu á þessu?“ spyr Magga Stína. 

Hún segir það virðast vera eins og að á Íslandi þurfi alltaf að bíða eftir stórum slysum til þess að það verði gert eitthvað til að sporna við hættunni.

Magga Stína segir þó ekkert sérstaklega vera að sakast við starfsfólk Krambúðarinnar. Þetta sé hins vegar vakning og skoða þurfi hvernig sé hægt að gera betur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert