Nítján flugferðum seinkað hjá Play

Play mun seinka komum og brottförum í fyrramálið vegna fyrirhugaðrar …
Play mun seinka komum og brottförum í fyrramálið vegna fyrirhugaðrar vinnustöðvunar FÍF. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirhugaðar aðgerðir Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) klukkan fjögur í nótt hafa orðið til þess að Play hefur ákveðið að seinka alls nítján flugferðum hjá sér.

Um er að ræða fimm flug frá Norður-Ameríku og fjórtán flugferðum frá Íslandi til Evrópu.

Ekki hægt að bíða með ákvörðun

Birgir Olgeirsson, upplýsingafulltrúi Play, segir í samtali við mbl.is að félagið hafi ekki getað beðið lengur með að taka ákvarðanir, þar sem enn sé fundað án niðurstöðu hjá ríkissáttasemjara.

Margir farþegar félagins í Norður-Ameríku séu undir venjulegum kringumstæðum á leið út á flugvöll og því þurfi að grípa inn í. 

Hann sagði flug frá Bandaríkjunum alla jafnan lenda á fimmta tímanum en munu nú komur þeirra frestast fram yfir klukkan tíu. Brottfarir til Evrópu séu að jafnaði á milli klukkan sex og sjö en færast nú fram yfir klukkan tíu.

Birgir segir að þau flug sem áætluð eru seinni partinn á morgun muni haldast óbreytt en ljóst sé að töluverðar raskanir verði á ferðum farþega félagsins og margir þeirra muni missa af tengiflugi sínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka