Sjö tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Áslaug Agnarsdóttir er meðal þeirra sem tilnefndir eru til þýðingaverðlaunanna.
Áslaug Agnarsdóttir er meðal þeirra sem tilnefndir eru til þýðingaverðlaunanna. mbl.is/Árni Sæberg

Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna voru kunngjörðar í Kiljunni á RÚV í kvöld. Að verðlaununum stendur Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.

Tilnefndir þýðendur eru í stafrófsröð: Áslaug Agnarsdóttir fyrir Gráar býflugur eftir Andrej Kúrkov sem Bjartur gefur út; Gyrðir Elíasson fyrir Grafreitinn í Barnes eftir Gabriel Josipovici sem Dimma gefur út; Hallur Páll Jónsson fyrir Mæður og syni eftir Theodor Kallifatides sem Dimma gefur út; Heimir Pálsson fyrir Lokasuðuna eftir Torgny Lindgren sem Ugla gefur út; Jón Erlendsson fyrir Paradísarmissi eftir John Milton sem Mál og menning gefur út; Pálína S. Sigurðardóttir fyrir Andkrist eftir Friedrich Nietzsche sem Lærdómsrit bókmennta­félagsins gefur út og Uggi Jónsson fyrir Orðabók hinna týndu orða eftir Pip Williams sem Mál og menning gefur út. 

Umsagnir dómnefnda:

Áslaug Agnarsdóttir – Gráar býflugur

  • „Bókin fjallar á fremur þurran og oftast kurteislegan hátt um tvo innlyksa menn í yfirgefnu þorpi á gráu svæði á milli Úkraínu og Rússlands í miðju stríði landanna um yfirráðarétt landsvæðisins. Mennirnir voru óvinir allt frá barnæsku en eru nú dæmdir til að þola hvorn annan. Á ofurnærgætinn hátt túlkar Áslaug orðin og söguna og nær að miðla til okkar stirðu sambandi þeirra í upphafi, ólgandi reiðinni innra með þeim, örvæntingunni sem fylgir stríðsástandi, öllum grunsemdunum og óttanum, en einnig neyðinni sem þröngvar þeim saman. Dæmigert orð hér gæti verið „húsráðandi“, sem þeir verða hvor um sig þegar annar heimsækir hinn, í staðinn fyrir „gestgjafi“ eða „húsbóndi“. Hlutlaust orð á hlutlausu svæði. Við fylgjumst aðallega með hugsunum Sergejs sem er býflugnabóndi og nær þýðandi vel að miðla ástúðlegu sambandi hans við flugurnar og örvæntingunni sem hann finnur fyrir þegar hann neyðist til að flytja flugurnar í burtu.“

Gyrðir Elíasson – Grafreiturinn í Barnes:

  • „Hér er um nokkuð flókna sögu að ræða sem gerist á ýmsum skeiðum í lífi þýðanda sem hér rifjar upp sögu sína á óvenjulegan hátt, óljósan og oftar en ekki sitjum við uppi með: Hvað kom fyrir? Við kíkjum inn í hugarfylgsni örvinglaðs manns sem lifir „rólegu“ lífi þýðanda í París, þar sem hann bjó áður en fyrri kona hans dó á Englandi. Þýðingin er afar nærgætin, við upplifum fábreytta daga og venjur þýðandans og finnum til með honum án þess að skilja hvers vegna, því undir niðri krauma voveiflegir atburðir og djúp lífsreynsla. Smám saman raðast brotin saman, þó aldrei fullkomlega en afskaplega ánægjulega í stórgóðri þýðingu Gyrðis. Lesturinn verður að upplifun.“
Gyrðir Elíasson er tilnefndur fyrir þýðingu á Grafreiturinn í Barnes.
Gyrðir Elíasson er tilnefndur fyrir þýðingu á Grafreiturinn í Barnes. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Hallur Páll Jónsson – Mæður og synir:

  • „Saga Kallifatidesar, sem lýsir endurfundum hans og móður hans eftir langan aðskilnað, er sterk og hrífandi. Heiti verksins leiðir í ljós að þar er ekki eingöngu um að ræða sögu eins sonar og móður hans heldur allra mæðra og sona. Sonum er gert að slíta böndin sterku og mæðrum að sjá eftir sonum sínum út í óvissuna og takast á við það. En engin bönd slitna alveg. Sonurinn verður alltaf sá sem hékk í pilsfaldi móður sinnar, barn sem þarf að gæta, gefa holl ráð og fræða. Móðirin situr eftir í sínum heimi og líst ekki alltaf á blikuna. Það er því sterkur tónn trega, saknaðar og eftirsjár í þessu verki, einnig tónn ástar og kærleiks, en einnig sáttar - og ekki síst æðruleysis hinnar öldnu móður sem sættir sig við það sem orðið hefur, af því að henni er gert það. Þýðing Halls Páls Jónssonar nær harla vel þessum tónum öllum í fallegum og yfirveguðum texta.“

Heimir Pálsson – Lokasuðan:

  • „Saga Torgnys er ekki einungis saga af stórmerkilegu mannlífi á norðurslóðum heldur tekst höfundur á við gildi sannleikans eða öllu heldur gildi þess að stundum hljóti sannleikurinn að víkja þegar hið skapandi afl nær undirtökunum í glímunni við veruleikann. Hinum aldargamla fréttaritara dagblaðsins var sagt upp störfum þegar í ljós kom að fréttir hans áttu lítt við rök að styðjast en hann lítur svo á að dagblað og fréttir þess séu hugverk og bregst til varnar: “Að bera ábyrgð á dagblaði er að bera ábyrgð á hinu andlega, hinu djúpmennska” og bendir síðan á að ”þungstígir staðarfregnritarar” annarra blaða “standi mér langt að baki í listfengi og listrænum metnaði og hæfni”. Hann hefst síðan handa við fréttir sínar 53 árum síðar – en við vitum minnst um það hvort þær eru “sannar”. Þýðing Heimis bregst ekki; hún er nánast gómsæt og skilur eftir sig ljúfan eftirkeim. Forðabúr tungunnar gefur þýðandanum færi á fjölbreyttu úrvali orða og stíls og úr því eys Heimir og sækir oft djúpt.“

Jón Erlendsson – Paradísarmissir:

  • „Það er ekki lítið verk eða létt sem Jón Erlendsson tekst á hendur er hann þýðir á okkar tungu Paradísarmissi Miltons, eitt af höfuðverkum heimsbókmenntanna, undir frumhættinum, stakhendunni. Stakhendan er rímlaus háttur þar sem hver lína er 11 atkvæði, en að íslenskri hefð bæði með stuðlum og höfuðstöfum. Texti Jóns Erlendssonar er nákvæmur og læsilegur og sýnir oft á tíðum mikla hugkvæmni þýðandans. Paradísarmissir á enn erindi til okkar; þar er lýst þeirri baráttu góðs og ills sem aldrei tekur enda og spillingin leikur enn lausum hala. Lúsifer er ekki af baki dottinn. Jón Erlendsson hefur unnið afreksverk.“
Jón Erlendsson þýðir Paradísarmissi Miltons.
Jón Erlendsson þýðir Paradísarmissi Miltons. mbl.is/Hákon Pálsson

Pálína S. Sigurðardóttir – Andkristur:

  • „Lestur Andkrists reynir á. Lesandinn, sem ef til vill þekkir hugmyndir höfundar helst út frá alþekktum slagorðum, verður að gera upp hugmyndir sínar um kristna menningu og þau gildi sem hennni fylgja. Verkið knýr okkur til “þess að hugsa, til að hugsa áfram” eins og Sigríður Þorgeirsdóttir segir í lok greinargóðs inngangs bókarinnar. Það á við Andkrist eins og flest heimspekirit að þýðing verksins er ekkert áhlaupaverk; nýjar, oft framandi hugmyndir krefjast nýrrar nálgunar sem gjarna reynir á tungumálið. Þann vanda leysir Pálína með glæsibrag.“

Uggi Jónsson – Orðabók hinna týndu orða:

  • „Fyrsti hluti Oxford orðabókarinnar kom út 1884, nú er unnið að þriðju heildarútgáfunni og verður hún eingöngu á netinu, en „ævisaga“ orðabókarinnar er líka komin á prent og svo þessi skáldsaga. Hún fjallar m.a. um hvað sé viðurkvæmilegt málfar og hvers konar orðaforði sé þess virði að hann fari í orðabók. Hefur t.d. orðfæri kvenna eitthvað að gera í slíka bók? Uggi þýðir þessa skáldsögu um málfar, kvenréttindi og lífshlaup tveggja kynslóða á skýrt og aðgengilegt mál, hvort heldur sem er ljóðræna kafla verksins eða þá sem fjalla um vald tungumálsins og hvernig valdakerfið beitir því.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert