Lagasetning í undirbúningi

Flugvél á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Farið er að styttast í að lög verði sett á verkfall flugumferðarstjóra og benda líkur til þess að óbreyttu að Alþingi verði kallað saman í þessari viku til að afgreiða frumvarp þess efnis. Frumvarpið mun vera tilbúið í innviðaráðuneytinu, að því er heimildir Morgunblaðsins herma, enda þótt Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hafi ekki viljað staðfesta tilvist þess í samtali við blaðið.

„Þessum aðilum skal vera ljóst að það er enginn sérstakur skilningur meðal þjóðarinnar á því að það sé skynsamlegt að vera í verkfalli rétt fyrir jól í kjölfarið á náttúruhamförum sem hafa kostað samfélagið umtalsvert. Fólk hlýtur að átta sig á því að það ber ábyrgð,“ segir Sigurður Ingi.

„Ég held að samfélagið standi ekki saman um þetta verkfall og þess vegna augljóst að þessir aðilar eiga að setjast niður og semja. Þetta er síðasti samningurinn í lotu sem hófst fyrir meira en ári og allir hafa hingað til samið um kjör innan ákveðins bils og það hlýtur að vera það sem menn ættu að vera að tala um,“ segir Sigurður Ingi.

Ekki verður gripið til þess að setja bráðabirgðalög þótt Alþingi sé farið í jólafrí, enda er hægt að kalla þing saman með skömmum fyrirvara. Staða vinnudeilunnar er í sífelldri skoðun, enda í hörðum hnút.

Skv. heimildum úr röðum þingmanna er víðtækur stuðningur innan þings til þess að stöðva verkfallið með lögum. Ágreiningur er þó sagður meðal þingmanna um það hvort setja eigi lög sem fresta verkfallinu fram yfir komandi kjarasamninga á almenna markaðinum, eða hvort svipta eigi flugumferðarstjóra verkfallsrétti, en það er þó talið ólíklegra en hitt. 

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert