Fylgir forskriftinni úr Kröflueldum

Páll Einarsson segir eldgosið á Reykjanesskaga fylgja forskriftinnni úr Kröflueldum.
Páll Einarsson segir eldgosið á Reykjanesskaga fylgja forskriftinnni úr Kröflueldum. Samsett mynd

„Þetta er dæmigert gos fyrir íslenskar aðstæður, eftir þrjú ódæmigerð gos er þetta hressileg áminning um hvernig íslensk gos eru venjulega,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, um eldgosið sem hófst norðan við Grindavík í gær.

Hann segir atburðarásina hafa verið frekar hraða og gossprunguna í lengra lagi, þó hún sé ekkert rosalega löng.

„Það sem af er gosi hefur þetta fylgt nokkuð vel forskriftinni frá Kröflugosunum, betur en þessi þrjú litlu gos sem voru á undan,“ segir Páll. 

Frávik er skjálfta varðar

Skjálftavirkni var í um eina og hálfa klukkustund áður en gos hófst og hélt áfram eftir það. 

„Það eina sem er frávik er að gossprungan var tiltölulega lengi að lengjast og skjálftarnir fylgja því. En oftast þegar svona gerist þá dettur skjálftavirknin niður þegar gosið nær sér upp. Það gerðist ekki í gær fyrr en gossprungan var komin í fulla lengd. Þegar skjálftarnir hættu, þá hætti hún að lengjast,“ segir Páll. 

Spurður hvað hann telji að þetta gos standi lengi yfir segir prófessorinn að ómögulegt að segja til um það. Þó byrjunin hafi verið kröftug þýði ekki að það verði fljótt að lognast út af. 

Hann segir gosinu svipa hvað mest til gosanna sem hófust í Kröflueldum sumarið 1980.

Páll segir atburðarásina í eldgosinu hafa verið frekar hraða.
Páll segir atburðarásina í eldgosinu hafa verið frekar hraða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrsta eldgosið virkilega frábrugðið

„Þetta er miklu venjulegri hegðun fyrir íslensk eldgos ef við horfum til lengri tíma. Þá kemur alltaf betur og betur í ljós hvað þetta fyrsta gos í Fagradalsfjalli var óvenjulegt. Það byrjaði með mjög litlu gosi og svo hélt það bara áfram að malla í sex mánuði. Það kviknaði og slokknaði á víxl og gerði alls konar kúnstir, sem er frekar óvanalegt,“ segir Páll. 

Hann segir að miðað við þá stöðu sem var uppi áður en eldgos hófst, hafi það komið upp á ágætum stað. 

„Með þennan gang þarna og ganginn undir Grindavík. Þá er þetta heppileg sviðsmynd að þetta sé að koma upp alveg nyrst. Hraunið rennur á svæði þar sem það gerir alveg lágmarkstjón eins og er,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert