Eins og nokkrum dögum fyrir gos

Svart á hvítu. Horft til norðurs með Sundhnúkagígaröðinni og yfir …
Svart á hvítu. Horft til norðurs með Sundhnúkagígaröðinni og yfir svart hraunið sem eirir engri fönn. Vinstra megin má sjá hvar Grindavíkurvegurinn liggur í suður í gegnum varnargarðana og fram hjá Sýlingarfelli. Stóra-Skógfell stendur fjær fyrir miðju, við hraunjaðarinn. Sundhnúk má sjá niðri til vinstri á gígaröðinni, sem varð til fyrir um 2.400 árum, en af honum dregur hún nafn sitt. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson/@h0rdur

Vísbendingar eru um að eldgos geti brotist út að nýju í kringum áramót.

Nýjustu mælingar Veðurstofu frá því á jóladag sýna að landris í Svartsengi hafði þá náð sömu hæð og mældist dagana 11.-12. desember, eða sex til sjö dögum áður en gos braust út 18. desember.

Jarðvísindamennirnir Benedikt G. Ófeigsson og Þorvaldur Þórðarson segja báðir að þróun landrissins síðustu daga líkist þróuninni fyrir það eldgos.

Telur eldgos líklegra en kvikuhlaup

Aðspurður segir Þorvaldur að landrisið geti ýmist endað með kvikuhlaupi, eins og varð 10. nóvember, eða gosi í líkingu við það sem varð fyrr í mánuðinum.

Spurður hvort hann telji líklegra nefnir hann eldgos.

„Þetta gæti orðið í fyrstu vikunni í janúar,“ bætir hann við.

Óvissa uppi vegna landrissins

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur segir ákveðna óvissu uppi, sérstaklega í ljósi landrissins.

„Það er gert ráð fyrir því að staðan verði tekin núna á milli jóla og nýárs og þá verður bara eftir atvikum gefin út ný tilkynning frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum um framhaldið,“ segir Fannar.

Lögreglustjórinn tilkynnti þann 22. desember að Grindvíkingar mættu halda jólin heima. Talið er að á aðfangadag hafi fólk verið í 50-60 húsum í Grindavík.

Nánar er fjallað um jarðhræringar á Reykjanesskaga og horfurnar fram undan á síðum 4 og 12 í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert