Land náð sömu hæð og fyrir eldgosið

Land hefur náð sambærilegri hæð í Svartsengi og fyrir eldgosið …
Land hefur náð sambærilegri hæð í Svartsengi og fyrir eldgosið 18. desember. mbl.is/Eyþór

Land hefur nú náð sambærilegri hæð og mældist rétt fyrir eldgosið 18. desember. Þetta sýna tölur GPS-mæla við Svartsengi og heldur land áfram að rísa.

Fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands og segir þar að líkur á eldgosi hafi því aukist.

„Hraði landrissins síðan 18. desember hefur haldist nokkuð stöðugur sem er frábrugðið stöðunni fyrir síðasta gos, en þá hægðist á landrisi vikurnar fyrir gosið. Erfitt er þó að fullyrða um að landris hægi á sér í aðdraganda næsta goss, en það hefur þó verið tilfellið í gosum sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðustu ár og var einnig notað til viðmiðunar í Kröflueldum,“ segir tilkynningunni.

Óvíst hversu mikinn kvikuþrýsting þarf

Þá segir þar að óvissa sé um hversu mikill kvikuþrýstingur þarf að byggjast upp áður en kvika fer að leita upp á yfirborðið.

Landrisinu nú fylgir ekki eins mikil skjálftavirkni og áður. Ástæða þess er að í atburðunum 10. nóvember og 18. desember losnaði um mikla spennu á svæðinu þegar kvika braut sér leið í jarðskorpunni. Í aðdraganda síðasta goss urðu allnokkrir skjálftar yfir 3 og einn yfir 4 að stærð. Samfara áframhaldandi landrisi er líklegt að skjálftavirkni aukist aftur.

Líklegast þykir sérfræðingum Veðurstofunnar að það gjósi aftur á Sundhnúkagígaröðinni, á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Mikilvægt er að rifja upp að kvikuhlaup enda ekki alltaf í eldgosi, eins og dæmi eru um í tengslum við virknina við Fagradalsfjall og eins í Kröflueldum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert