Verslunin rekin alfarið í sjálfboðastarfi

Allur ágóði verslanarinnar Elley á Seltjarnarnesi rennur óskiptur til Kvennaathvarfsins.
Allur ágóði verslanarinnar Elley á Seltjarnarnesi rennur óskiptur til Kvennaathvarfsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Marta Harðardóttir, eigandi verslunarinnar Elley á Seltjarnarnesi, segir starfsemi verslunarinnar hafa gengið vonum framar hingað til, en hún opnaði í febrúar á þessu ári.

Verslunin er rekin alfarið í sjálfboðastarfi og rennur allur ágóði sölu hennar óskiptur til Kvennaathvarfsins.

Allur ágóðinn fer til Kvennaathvarfssins

Verslunin Elley, sem er til húsa á Austurströnd 10 á Seltjarnarnesi, er einstök að mörgu leyti. Þangað er hægt að gefa notuð föt sem síðan eru seld og rennur ágóði þeirra allur til Kvennaathvarfsins.

Sigríður Marta, eigandi og stofnandi verslunarinnar, segir hugmyndina að baki Elley meðal annars eiga rætur sínar að rekja til námsára sinna.

„Þegar ég var í laganámi við Háskólann í Reykjavík var ég framkvæmdastjóri þjónustu sem veitti endurgjaldslausa ráðgjöf einu sinni í viku. Þegar ég var framkvæmdastjóri fór ég í samstarf við Kvennaathvarfið þar sem við mættum einu sinni í viku og veittum ráðgjöf.“

Sigríður segir það hafa haft mikil áhrif á sig að hafa fengið að kynnast starfsemi Kvennaathvarfsins og hrósar hún starfsemi þess í hástert.

„Það hafði áhrif á mig að hitta konur sem voru í erfiðum aðstæðum og að hugsa til þess að maður geti aðstoðað þær. Þarna eru þau að grípa konur sem eru að upplifa mjög erfiða tíma í sínu lífi og það er svo mikilvægt að grípa konur í slíkum aðstæðum og að hjálpa þeim út úr þeim,“ segir Sigríður.

Sótti innblástur til Los Angeles

Að laganáminu loknu flutti Sigríður til Los Angeles í Bandaríkjunum, en það er þaðan sem verslunin dregur nafn sitt.

„Svo flyt ég til Bandaríkjanna og þarna blundar alltaf eitthvað í manni að maður vilji gefa til baka. Þá fer ég að vera sjálfboðaliði í verslun sem selur mjög falleg notuð föt til þess að styrkja kvennaathvarf í Los Angeles, sérstaklega heimilislausar konur þar sem heimilisleysi er mikið vandamál þarna,“ segir Sigríður. 

„Síðan þegar við komum heim finn ég að þetta er eitthvað sem ég verð að gera, en búðin er einmitt skírð eftir L.A. (Ell-ey), þar sem konur eru að gefa fallegu fötin sín sem þær eru hættar að nota og styrkja þar með konur í kvennaathvarfinu.“

Sigríður Marta bjó um tíma í Los Angeles í Bandaríkjunum …
Sigríður Marta bjó um tíma í Los Angeles í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði sem sjálfboðaliði í verslun svipaðri þeirri sem hún rekur í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Samfélagslegt verkefni allra að hjálpa öðrum“

Sigríður segir að með opnun verslunarinnar hafi sig langað að gefa fólki tækifæri á að upplifa þá tilfinningu sem fylgir því að gefa af sér.

„Það er svo mikilvægt að gefa af sér, en þegar að maður gefur af sér fer orkan manns í að hugsa um eitthvað annað en mann sjálfan. Þegar maður fer að gefa af sér finnur maður fyrir því að allt sé mögulegt, bæði fyrir mann sjálfan og aðra,“ segir Sigríður.

„Það er samfélagslegt verkefni okkar allra að hjálpa öðrum og fara á sama tíma inn á þessa tíðni hjá okkur sjálfum að það sé allt hægt.“

Þakklát fyrir frábærar viðtökur

Að sögn Sigríðar er starfsemi Elley knúin áfram af óeigingjörnu starfi sjálfboðaliða sem skrá sig á vaktir í versluninni og þeim sem þangað koma með föt.

„Hingað hafa til dæmis komið sjálfboðaliðar með einhvers konar tenginu við Kvennaathvarfið og vilja gefa af sér,“ segir Sigríður sem kveðst vera virkilega ánægð með þær viðtökur og þau framlög sem versluninni hafi borist.

„Ég er þakklát fyrir alla sem koma með föt hingað. Það eru konur sem koma víða að, meðal annars utan af landi, með poka af fötum sem þær vilja gefa. Ég er þakklát fyrir hvert einasta framlag því án þeirra værum við ekki hér,“ segir Sigríður.

Sigríður Marta segir það vera mikið fengið með því að …
Sigríður Marta segir það vera mikið fengið með því að gefa af sér til annarra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Elley er hér til að vera“

Sigríður segist finna fyrir mikilli velvild þeirra sem verslunina sæki, en í henni er að finna mikið úrval fata af ýmsum stærðum og gerðum. Hún segir verslunina sérstaklega vinsæla hjá ungu fólki, búningahönnuðum og stílistum sem sæki í einstakar flíkur. 

„Fólki finnst bæði æðislegt að versla á umhverfisvænan hátt og svo kann það vel að meta að það sé verið að gefa flíkunum framhaldslíf. Svo finnst mörgum einnig spennandi að koma hingað og skoða föt með sögu sem hafa oft verið versluð hvaðanæva úr heiminum.“

Aðspurð segist Sigríður ekki geta sagt til um hvað framtíðin beri í skauti sér. Hún segir verslunina Elley þó vera komna til að vera.

„Elley er hér til að vera og mun koma til með að festa sig enn frekar í sessi á næstu árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert