Hamstrið fór úr böndunum

Þessi ljósmynd barst Sorpu af heimili þar sem íbúi hafði …
Þessi ljósmynd barst Sorpu af heimili þar sem íbúi hafði komið upp safni poka. Ljósmynd/Aðsend

Ákvörðunin um breytingu á dreifingu á bréfpokum, sem ætlaðir eru til flokk­un­ar á líf­ræn­um úr­gangi,  var tekin með þá staðreynd fyrir augum að íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa nú þegar sótt sér 24 milljónir bréfpoka á rétt rúmu hálfu ári.

„Áætlanir SORPU gerðu ekki ráð fyrir að fólk myndi hamstra poka í þeim mæli sem það gerði. Það er margfalt meiri kostnaður en gert var ráð fyrir í þessum lið verkefnisins,“ segir Gunn­ar Dof­ri Ólafs­son, sam­skipta- og þró­un­ar­stjóri Sorpu. 

Þá bendir hann á, að niðurstöður Þjóðarpúls Gallup frá því í desember bendi jafnframt til þess að fólk hafi farið offari í að hamstra poka og að um 10% íbúa hafi tekið og eigi 800 poka eða fleiri. Það magn af pokum myndi endast heimili sem skiptir um bréfpoka þriðja hvern dag í um sex og hálft ár.  

Gunnar Dofri segir að þessar 24 milljónir poka, sem nú þegar séu á heimilum, ættu að duga í 1,5 til 2 ár, eftir því hvort meðalheimili skiptir um poka annan hvern eða þriðja hvern dag.

„Hið nýja samræmda flokkunarkerfi sem sveitarfélögin tóku upp á síðasta ári, er rétt tæplega átta mánaða gamalt – og var ekki að fullu innleitt á öllu höfuðborgarsvæðinu fyrr en fyrir fjórum mánuðum – og því ljóst að heimili á höfuðborgarsvæðinu eiga mjög mikinn fjölda poka í skápum og skúffum, þó svo að þeim gæðum sé að öllum líkindum nokkuð misskipt eftir því hversu kræft fólk var við að hamstra poka síðustu mánuði,“ segir í skriflegu svari til mbl.is. 

Hann segir jafnframt, að  kostnaður við innkaup á pokunum hafi þannig orðinn meiri en svo að hægt væri að réttlæta áframhaldandi óbreytta dreifingu.

„SORPA og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta erfiðlega réttlætt að tryggja …
„SORPA og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta erfiðlega réttlætt að tryggja íbúum poka endurgjaldslaust með því mikla aðgengi sem verið hefur þegar umgengni um þá er ekki betri en raun ber vitni.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Sóttu sér poka fyrir 240 milljónir

Hann segir að hver poki kosti íbúa tæpar 10 krónur auk virðisaukaskatts í innkaupum fyrir SORPU og sveitarfélög.

Kostnaður við þá poka sem íbúar hafi sótt sér á tímabilinu júní til desember á síðasta ári hafi því verið um 240 milljónir króna, „og ekkert sem benti til þess að búið væri að seðja hungur íbúa í bréfpoka, þar sem ekkert hægðist á eftirspurn, þrátt fyrir að það magn sem þegar hefur verið dreift ætti að endast höfuðborgarsvæðinu öllu langleiðina út þetta ár,“ segir Gunnar Dofri.

Margfalt meiri kostnaður

„Þetta lagerhald fólks og sú stuðningsyfirlýsing við kerfið sem þessi hömstrun hlýtur að vera breytir því ekki að með óbreyttri dreifingu hefði kostnaður íbúa og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu við innkaup á pokum nálgast 500 milljónir á hverju ári. Áætlanir SORPU gerðu ekki ráð fyrir að fólk myndi hamstra poka í þeim mæli sem það gerði,“ segir enn fremur. 

„Það er margfalt meiri kostnaður en gert var ráð fyrir í þessum lið verkefnisins sem er ekki fjárhagslega sjálfbært og ekki forsvaranleg nýting á fjármunum SORPU og útsvarsgreiðenda á höfuðborgarsvæðinu og hefði að óbreyttu kallað á meiri hækkanir á gjaldskrá SORPU.“

Pokarnir nýttir í aðra hluti

Þá bendir Gunnar Dofri á, að það hafi einnig komið í ljós, að fólk og stofnanir nýttu poka í öðrum tilgangi en þeir voru ætlaðir.

„Styttur, glös og annað smálegt kom til að mynda innpakkað í poka undir matarleifar í gám Góða hirðisins, og skólar og leikskólar á höfuðborgarsvæðinu nýttu pokana í jólaföndur. SORPA og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta erfiðlega réttlætt að tryggja íbúum poka endurgjaldslaust með því mikla aðgengi sem verið hefur þegar umgengni um þá er ekki betri en raun ber vitni.  Íbúar munu geta sótt bréfpoka á einhverja af þeim sex Endurvinnslustöðvum sem SORPA rekur og í verslun Góða hirðisins á Köllunarklettsvegi 1.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert