Vísbendingar um að land sé farið að síga

Frá vinnu við varnargarða í Grindavík.
Frá vinnu við varnargarða í Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísbendingar eru um að land sé tekið að síga lítillega við Svartsengi.

Þetta segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Hún tekur sérstaklega fram að þetta sé „ekki sterkasta merkið sem ég hef séð“ um landsig. Aðeins örfáir mælar sýni fram á eitthvað landsig á svæðinu.

Aðspurð segir Sigríður að landsig „gæti þýtt að það fari bara alveg að gjósa“, en bendir þó á að jarðskjálftar séu algengari fyrirvari fyrir eldgos á Reykjanesskaganum. 

Færri jarðskjálftar mælst

Sigríður segir annars vegar að fyrir síðasta gos hafi land einnig sigið lítillega. Hins vegar hafi landris hægt á sér í síðustu viku en síðan aftur aukið við sig.

Færri jarðskjálftar hafa mælst í grennd við Grindavík síðustu daga og afar fáir yfir þremur að stærð.

Hvassviðri hefur vissulega haft áhrif á mæla Veðurstofu undanfarna viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert