Sauð næstum upp úr við sauðabjörgun

Grétar náði í 24 kindur í Grindavík fyrr í kvöld.
Grétar náði í 24 kindur í Grindavík fyrr í kvöld. Samsett mynd/Kristinn Magnússon/Grétar Jónsson

Grétar Jónsson, formaður Fjáreigendafélags Grindavíkur, fékk að flytja kindurnar sínar úr Grindavík fyrr í kvöld. Það gekk þó ekki átakalaust fyrir sig. Við lá að upp úr syði er hann mætti sérsveitarmönnum ríkislögreglustjóra.

Grétar flutti kindurnar yfir í Selvog, nærri Strandarkirkju í Ölfusi, og náði hann að taka 24 kindur úr Grindavík. Átti hann 25 kindur í Grindavík en ein þeirra var dauð þegar hann kom í kvöld. Hafði hún verið veik fyrir.

Grétar fór ásamt eiginkonu sinni og tengdasyni að sækja kindurnar.

Gert að yfirgefa Grindavík eftir heitar samræður

Er þau voru mætt í Grindavík, og voru ekki í nema um 50 metra fjarlægð frá búinu, stöðvaði sérsveit ríkislögreglustjóra þau. Þau höfðu ekki fengið sérstakt leyfi til að sækja kindurnar en höfðu komist í gegnum lokunarpósta þar sem tengdasonurinn er björgunarsveitarmaður.

Var þeim gert að yfirgefa Grindavík eftir nokkuð heitar samræður við sérsveitarmennina þar sem það sauð næstum því upp úr á milli sérsveitarmannanna og þeirra, að sögn Grétars.

„Þá fórum við beint upp á lögreglustöð í Keflavík og þá báðum við um viðtal við tvo lögreglumenn, yfirmenn,“ segir Grétar.

Húsið varð hrauninu að bráð

Á lögreglustöðinni í Reykjanesbæ gekk heldur ekki sérlega vel að fá leyfi til að fara í bæinn fyrr en Grétar, eiginkonan og tengdasonurinn útskýrðu fyrir lögreglunni að kindurnar væru nærri því það eina sem þau ættu eftir í hinum veraldlega heimi.

Tengdasonurinn átti eitt af þeim húsum sem varð hrauninu að bráð í Grindavík.

„Við sögðum þeim það – hvaða ástandi við værum í. Tengdasonurinn missir húsið og ég og konan eigum húsið þar sem hraunið lagðist að. Þá fóru að renna á þá tvær grímur.“

Úr því varð að þau fengu leyfi til að fara til Grindavíkur og fengu fylgd með björgunarsveit. Tók það ekki nema 5-10 mínútur að sækja sjálfar kindurnar að sögn Grétars. Voru þær svo ferjaðar á Selvog.

Vandar sérsveitinni ekki kveðjurnar

Hann segir það ótækt að sérsveitarmenn taki á móti fólki sem er harmi slegið á lokunarpóstum, eins og hafi til dæmis gerst í nóvember í kjölfar rýmingar.

„Ríkislögreglustjóri á ekki að hafa þessa menn – að vera í sambandi við fólk sem er miður sín. Hausinn á því er bara í rúst og hvað eru menn þá að spá að hafa þessa menn? Þeir eiga að vera að slást við eiturlyfjasala, þeir kunna bara ekkert samskipti við fólk sem er í neyð. Það er eitthvað annað sem þeir eiga að vera í. Þetta er bara ekki rétt að gera þetta,“ segir hann og bætir við:

„Þetta getur bara rústað fólki gjörsamlega hreint, því miður, ég verð bara að segja það. Sjálfsagt eru þeir bara að vinna vinnu sína en þetta er ekki Þeirra svið – að eiga við fólk sem er í taugaáfalli, miður sín og veit ekki hvað það á að segja. Það er eins og það sé verið að skamma það og það á ekki að koma svoleiðis fram við fólk sem er búið að lenda í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert