Mótmælendur fjarlægja tjald á Austurvelli

Frá mótmælunum á Austurvelli.
Frá mótmælunum á Austurvelli. mbl.is/Árni Sæberg

Hópur Palestínumanna sem hefur mótmælt á Austurvelli undanfarinn mánuð ætlar að taka mótmælatjaldið sem þar er staðsett niður í dag. 

Hópurinn ætlar samt sem áður að halda áfram mótmælum sínum á Austurvelli, að því er kemur fram í tilkynningu.

„Sameiginleg ábyrgð okkar hverfur ekki með þessu tjaldi; hún nær til áframhaldandi leitar okkar að réttlæti, friði og mannlegri reisn og verndar viðkvæmra mannslífa í Palestínu. Okkur finnst við ekki eiga annars kostar völ en að halda áfram,” segir í tilkynningunni.

Þar kemur einnig fram að tjaldbúðirnar á Austurvelli hafi verið reistar í samræmi við lög og opinber leyfi. Lögreglan og embættismenn borgarinnar hafi sagt mótmælin hafa farið vel fram og án nokkurra vandamála.

Á sama tíma hafi utanríkis- og dómsmálaráðherra neitað að hitta hópinn. Þess í stað hafi ráðherrarnir reynt að afmennska þau, sýnt mótmælunum lítilsvirðingu og talað um það í sjónvarpsviðtölum og á samfélagsmiðlum að nærveru þeirra væri ekki óskað á Íslandi.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði við mbl.is í gær að hún hyggðist bregðast við beiðni mótmælenda um að funda með sér. Hins vegar hefði formleg beiðni borist fyrir þarsíðustu helgi og síðan þá hafi orðið atburðir af miklum skala, eldgos og náttúruhamfarir sem hafi tafið að hægt væri að verða við beiðni um fund.

Segir í tilkynningunni að loforð um friðsamleg mótmæli yrði virt og tjöldin tekin niður í dag. „Þrátt fyrir að okkur þyki leitt að embættismenn í borginni geti ekki fundið hjá sér hugrekki til að styðja baráttu okkar í miðju þjóðarmorði gegn Palestínumönnum á Gasa viljum við virða loforð okkar um friðsamleg mótmæli þar sem virðing er í hávegum höfð. Þess vegna tökum við tjaldið niður í dag, eins og við höfum verið beðin um að gera,” segir einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka