Þrumur og eldingar vegna skarpra andstæðna

Leiðindaveður hefur verið á landinu.
Leiðindaveður hefur verið á landinu. Kort/Windy

„Við höfðum áhyggjur af því í gær að það gætu fylgt þessu eldingar og þær raungerðust,” segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur, spurður hvort eitthvað við óveðrið í nótt hafi komið honum á óvart.  

Hann kveðst ekki hafa frétt af neinum útleysingum í raforkukerfinu og segir bagalegt að hvorki hafi birst fjöldi né staðsetning eldinganna inn á þar til gert kort í eldingaskráningarkerfi Veðurstofu Íslands.

Einar segir skilin vera á hraðri leið til norðurs og nær veðrið hámarki norðan- og austanlands fyrir hádegi.

Milda loftið flaut yfir Vestfjarðakjálkann

„Það eina sem kom okkur dálítið á óvart var að það er eins og milda loftið hafi flotið yfir Vestfjarðakjálkann og það snjóaði talsvert mikið við Djúpið á Ísafirði í morgun. Var í núllgráðum í stað þess að hlána. Á sama tíma var kominn hiti uppi á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum,” greinir hann frá en segir þetta vera minniháttar frávik.

Einar bætir við að þegar hlýnar svona hratt verði flughált á sumum vegum, aðallega fjallvegum. Þannig var ástandið einmitt á Holtavörðuheiði í morgun og í Vatnsskarði á Norðurlandi. Hætt er við því að flughált verði um tíma á vegum á Norðaustur- og Austurlandi í dag, segir hann.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekki er von á fleiri lægðum í kjölfar þessarar, eins og oft vill verða. Þess í stað tekur við nokkuð ákveðið éljaloft úr vestri. Aftur tekur að kólna en minni lægð skýst yfir Suðaustur- og Austurland á morgun og snjóar aðeins.

„Það er loksins komið það sem við getum kallað vetrarástand á Norður-Atlantshafinu á okkar slóðum þar sem veðrið er rysjótt og skiptast á snöggar hlákur og snjókoma úr vestri,” bætir Einar við.

Heyrir til undantekninga

Spurður nánar út í þrumur og eldingar á Íslandi segir hann það heyra frekar til undantekninga að þær fylgi skilum lægða en þær aðstæður voru einmitt uppi í nótt.

„Fyrst og fremst verður þetta þegar skilin verða skörp og það eru skarpar andstæður á milli hlýja loftsins í suðri og austri og kalda loftsins í vestri og lægðin enn að dýpka þegar hún er hérna á okkar slóðum,” útskýrir hann en algengast er að þegar lægðir koma hingað til lands séu þær að grynnast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka